Handbolti

Ótrúleg endurkoma Pólverja í seinni hálfleik kom þeim áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pólverjar voru nálægt því að falla úr keppni á EM.
Pólverjar voru nálægt því að falla úr keppni á EM. Mynd/AFP
Pólverjar unnu tveggja marka sigur á Rússum, 24-22, í lokaleik sínum í C-riðli Evrópumótsins í handbolta í Danmörku og tryggðu sér með því sæti í milliriðlinum.

Útlitið var þó slæmt um tíma í leiknum en pólska liðið hafði tapaði tveimur fyrstu leikjum sínum með aðeins einu marki.

Pólverjar voru fjórum mörkum undir í hálfleik, 10-14, en áttu magnaða endurkomu í seinni hálfleiknum sem liðið vann 14-8 og leikinn þar með 24-22.

Rússland, Pólland og Serbía eru nú öll jöfn með tvö stig en Serbar þurfa að ná í stig á móti Frökkum til þess að komast áfram í milliriðilinn.

Pólverjar standa best í innbyrðisviðureignum þessara þriggja liða og eru komnir áfram því þeir verða alltaf ofar en Rússar og Serbar.

Rússar komast áfram nái Serbar ekki í stig á móti Frökkum en Frakkar þurfa að vinna þann leik því tapi þeir stigum í leiknum fara þeir ekki með fullt hús inn í milliriðilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×