Handbolti

Gaupi fór yfir EM með þeim Ásgeiri, Rúnari, Aroni og Canellas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður á Stöð tvö, fékk menn til að fara yfir frammistöðuna í riðlakeppninni og meta möguleika íslenska handboltalandsliðsins í milliriðlinum á EM í Danmörku en fyrsti leikur Íslands er á móti Austurríki á morgun.

„Riðlakeppninni í Álaborg er lokið og nú tekur við ný keppni, ný riðlakeppni, milliriðlar. En hvað getum við tekið með okkur úr leikjum þremur í Álaborg?,“ spyr Guðjón Guðmundsson í upphafi innslags síns frá Danmörku.

Guðjón ræddi við íslensku landsliðsmennina Ásgeir Örn Hallgrímsson og Rúnar Kárason, Spánverjann frábæra Joan Canellas og Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfara, en framundan eru leikir í milliriðli við Austurríki, Makedóníu og Danmörk.

„Ég held að það séu fullt af hlutum sem við getum tekið með okkur,“ sagði Ásgeir Örn sem fór yfir leiki íslenska liðsins í riðlinum.

„Ég held að við getum verið þokkalega sáttir en við hefðum getað gert betur bæði í Ungverjaleiknum og á móti Spáni. Það er alveg pláss fyrir bætingu,“ sagði Rúnar Kárason.

„Þetta var besti leikurinn okkar á mótinu til þessa og þá sérstaklega í sókninni. Við náðum markmiðinu okkar með því að taka öll stigin með okkur í milliriðilinn og nú þurfum við að berjast fyrir sæti í undanúrslitunum,“ sagði Spánverjinn Joan Canellas sem átti frábæran leik á móti Íslandi.

„Það eru margir búnir að skila framlagi í liðinu og við höfum notað sextán leikmenn sem er mjög jákvætt og veit á gott,“ sagði landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson.

Það er hægt að finna öll viðtölin hans Gaupa með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×