Handknattleikssamband Evrópu hefur tilkynnt hvernig undankeppni HM 2015 í Katar verður háttað.
Heimsmeistarar Spánverjar eru vitanlega öruggir með sæti í keppninni en þar að auki munu þrjú efstu liðin á EM í Danmörku fá þátttökurétt á HM í Katar.
Í vor taka svo átján lið þátt í umspili um níu laus sæti til viðbótar í keppninni. Þeim verður skipt í tvo styrkleikaflokka.
Í efri flokknum eru þau níu lið sem ekki fengu beinan þátttökurétt á HM í Katar. Þrjú neðstu liðin á EM fara svo í neðri styrkleikaflokkinn ásamt Þýskalandi og þeim fimm liðum sem unnu sína riðla í forkeppni HM sem nú stendur yfir.
Dregið verður í undankeppnina sunnudaginn 26. janúar næstkomandi, sama dag og úrslitaleikurinn á EM fer fram. Í umspilinu dragast tvö lið saman og verður leikið heima og að heiman, væntanlega í byrjun júní.

