Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Þór Þ. 100-73 | Öruggt hjá Njarðvíkingum

Árni Jóhannsson skrifar
Elvar Már Friðriksson.
Elvar Már Friðriksson. Vísir/Vilhelm
Njarðvíkingar héldu áfram sigurgöngu sinni í Ljónagryfjunni þegar þeir unnu sannfærandi 27 stiga sigur á Þór úr Þorlákshöfn, 100-73, í fimmtándu umferð Domnios-deildar karla í körfubolta í kvöld.

Þrír Njarðvíkingar komust yfir tuttugu stiga múrinn í leiknum, Tracy Smith yngri var með 27 stig og 12 fráköst, Logi Gunnarsson skoraði 22 stig og Elvar Már Friðriksson bætti við 20 stigum og 9 stoðsendingum.

Njarðvík tók öll völd strax í byrjun, vann fyrsta leikhlutann 23-15 og var með sextán stiga forskot í hálfleik, 50-34. Þórsarar réðu ekkert við sterka Njarðvíkinga sem unnu sinn sjöunda heimaleik í röð í deildinni.

Liðin byrjuðu af svipuðum krafti í kvöld og skiptust á að skora fyrstu mínúturnar en um miðjann fyrsta fjórðung náðu Njarðvíkingar að slíta sig aðeins frá gestunum og voru komnir með fimm stiga forustu þegar fimm mínútur voru liðnar, 16-9. Þeir voru alls ekki hættir og náðu með fínum leikkafla að auka muninn í tíu stig en Þórsarar löguðu stöðuna aðeins og var staðan 23-15 fyrir Njarðvík.

Njarðvíkingar voru að finna Tracy Smith Jr. inn í teig gestanna og hann skilaði 15 stigum í fyrri hálfleik og er það bersýnilegt að þarna eru þeir komnir með flott vopn í teiginn. Heimamenn juku við kraft sinn í vörninni í öðrum leikhluta og komust mest í 16 stiga mun sem þeir náðu að halda alveg út hálfleikinn. Staðan var 50-34 og var Smith Jr. stigahæstur í liði heimamanna með 15 stig eins og áður segir. Hjá gestunum var það Mike Cook Jr. sem var stigahæstur og vakti það athygli að einungis fjórir leikmenn Þórs voru komnir á blað í hálfleik.

Það er skemmst frá því að segja að Þór Þ. náði aldrei að koma muninum niður í eins stiga tölu í seinni hálfleiknum. Þeir komu út í báða fjórðunga seinni hálfleiks af miklum krafti og hótuðu því að ætla sér einhverja hluti en Njarðvíkingar náðu alltaf að svara aðgerðum þeirra og halda heilbrigðri forystu.

Sterkur varnarleikur og öflugur sóknarleikur heimamanna var það sem skóp sigurinn en Tracy Smith Jr. fór mikinn í teig gestanna og skoraði 27 stig fyrir Njarðvíkinga. Möguleikarnir sem að Smith Jr. færir Njarðvíkingum eru margir því skyttur þeirra eiga það til að hitna vel og því er hægt að senda boltann aftur út úr teignum ef andstæðingar Njarðvíkinga tvídekka Smith J. Þór fékk allt of lítið framlag frá of mörgum leikmönnum sínum í kvöld og var Mike Cook Jr. sá eini sem virtist gera eitthvað af viti en kappinn endaði með 27 stig og 8 fráköst í leiknum. Leikmenn eins og Ragnar Nathanaelsson og Nemanja Sovic komust ekki yfir 10 stiga múrinn og var það Þórsliðinu dýrkeypt.

Njarðvíkingar náðu með sigrinum að jafna Grindvíkinga að stigum sökum þess að Grindavík tapaði og styrktu um leið stöðu sína í fjórða sæti deildarinnar.



Benedikt Guðmundsson: Hræðilega lélegir

„Við vorum bara lélegir í kvöld og áttum ekkert erindi í þennan leik" sagði niðurlútur þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn í leikslok. Hann var spurður hvort erfitt hafi verið að kveikja í sínum mönnum fyrir leik en mikið var undir fyrir leik.

„Það er langt síðan við spiluðum og ég sá að menn voru ryðgaðir en menn voru einhvernveginn daufir á meðan Njarðvíkingar voru að koma úr hörkuleik á móti Keflavík. Við vorum samt búnir að tala um það alla vikuna að Njarðvíkingar myndu koma brjálaðir til leiks og ef við næðum ekki að jafna það þá myndi fara illa. Við gerðum það ekki og get ég eiginlega ekki lýst þessu öðruvísi en að við höfum verið hræðilega lélegir."

„Ég ætla að rétt að vona að við náum að koma okkur í gírinn og ná stíganda í okkar leik. Við erum taka Suðurnesja rúnt núna þannig að ef við erum ekki að spila A-leikinn okkar þá eigum við ekki séns."



Elvar Már Friðriksson: Við skulduðum okkur sjálfum og áhorfendum afsökunarbeiðni

„Við skulduðum okkur sjálfum og áhorfendum afsökunarbeiðni eftir síðasta leik og þetta var hún" sagði glaður Elvar Már Friðriksson eftir leik. „Það var margt sem við gátum lagað eftir síðasta leik og vörnin þar aðallega. Við héldum þeim í 73 stigum og er það í samræmi við markmið okkar fyrir leik."

„Vörnin skilar sigri nánast í öllum leikjum. Á móti Keflavík náðum við ekki upp nógu góðri vörn enda fengum við skell og ætluðum við að snúa því við í kvöld og okkur tókst það."

Elvar var spurður út í Tracy Smith Jr. og hvernig hann passar inn í leik Njarðvíkinga: „Hann er fín viðbót, okkur vantaði náttúrulega ógn inn í teignum fyrir áramót en það eru margir sem geta skorað fyrir utan og því er komið meira jafnvægi í leik okkar. Það er þægilegra að spila þannig."

„Það er að sjálfsögðu markmiðið að vera með heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og við verðum að mæta einbeittir í alla leiki sem eftir eru því það eru bara hörkuleikir eftir."



Einar Árni Jóhannsson: Gríðarlega mikilvægt að ná sigri í kvöld

„Það var gríðarlega mikilvægt að ná sigri í kvöld eftir tvo seinustu leiki" voru fyrstu orð þjálfara Njarðvíkinga eftir leik kvöldsins. „Eftir skituna í Keflavík töluðum við um það að við þurftum að mæta grimmir í næsta leik og sem betur fer þurftum við ekki að bíða nema í örfáa daga til að koma hingað heim í gríðarlega mikilvægan leik. Tap í kvöld, tala nú ekki um sex stiga tap, hefði sett okkur niður í fimmta sæti en sigur í kvöld eru í raun og veru fimm stig. Við fáum eiginlega aukastig fyrir að vera með innbyrðisviðureignina ásamt því að auka muninn á Þór í fjögur stig í töflunni. Gríðarlega mikilvægur sigur fyrir töfluna og einnig sálina í okkur og fólkið okkar."

Einar var spurður hvort hann hafi haft einhverjar áhyggjur fyrir leiknum í kvöld. „Ég hafði engar áhyggjur, eins fáránlega og það hljómar. Ég var sannfærður um það að menn myndu mæta til leiks grimmir, við erum allir búnir að svekktir yfir okkar spilamennsku í seinasta leik og gerum okkur grein fyrir því að við þurrkum það ekkert út með einum sigri. Það eru kröfur sem eru gerðar á okkur alltaf að koma á heimvöll og standa klárir. Nú eru allir leikir sem eftir eru eins og útsláttakeppni, þetta er það jafnt og mörg lið að berjast fyrir einhverju og þetta gefur okkur byr í seglinn."

Þjálfari Þórs sagði að hann hafi verið var við ryð í sínum mönnum og var Einar spurður út í það hvort bið milli leikja skipti máli. „Það er alveg sjónarmið, ég og Benni erum miklir vinir og ræddum það seinast í dag að þeir væru búnir að bíða í 10 dag og við ekki nema í tæplega þrjá. Við mætum náttúru í samræmi við það, svolítið gíraðir og sýna það að við höfum meira fram að færa heldur en á mánudaginn. Það má vel vera að það hafi spilaði inn í í kvöld."

Leik lokið| 100-73: Njarðvíkingar sýndu mátt sinn hér í kvöld. Náðu forystu upp á tveggja stafa tölu í byrjun og létu hana ekki af hendi. Þórsarar byrjuðu fjórðungana í seinni hálfleik vel en voru fljóti að pústa út og ógnuðu í raun og veru aldrei þessum sigri.

39. mínúta | 97-73: Bæði lið hafa skipt inn á minni spámönnum og er það vel, þeir þurfa að fá sénisinn líka í efstu deild.

38. mínúta | 95-70: Ég ætla að lýsa þessum leik lokið, munurinn er orðinn 25 stig fyrir heimamenn og gestirnir eru ekki líklegir til að koma til baka.

36. mínúta | 90-70: Cook Jr. er kominn með 27 stig og er hann sá eini sem er að gera eitthvað af viti í sóknarleik Þórsara þessa stundina. Munurinn er orðinn 20 stig.

35. mínúta | 84-68: Þó að gestirnir hafi spilað betur en þeir hafa gert fyrr í leiknum eru þeir ekki að ná að stöðva Njarðvíkingana í sókninni. Munurinn er orðinn 18 stig og rúmar fimm mínútur eftir af leiknum.

33. mínúta | 79-66: Skemmtileg runa þar sem Maciej Baginski skoraði þriggja stiga körfu fyrir heimamenn og Emil Einarsson svaraði í sömu mynt..

32. mínúta | 76-63: Logi Gunnarsson snéri af sér varnarmann áður en hann fleytti boltanum í körfuna en Baldur Ragnarsson skoraði og stal síðan boltanum. Þór byrjar lokakaflann af meiri krafti.

31. mínúta | 74-60: Þór Þ. byrjar 3. leikhluta á því að skóta tveimur vítaskotum þar sem annað fer niður. Þetta var sökum tæknivillu sem bekkurinn hjá Njarðvík fékk fyrir kjaftbrúk. Emil Einarsson minnkar síðan muninn niður í 12 stig en Elvar Már er ekki lengi að svara.



30. mínúta | 72-57:
Mike Cook Jr. nær að bæta við tveimur stigum. Ólafur Helgi svarar með þremur fyrir heimamenn áður en Cook Jr. setur niður flautukörfu fyrir gestina með svokölluðu fade-away skoti í anda Kobe Bryant, flott tilþrif.

29. mínúta | 69-53: Smit Jr. heldur áfram að salla niður stigum fyrir heimamenn og er hann kominn með 23 stig ásamt því að rífa niður 8 fráköst.

28. mínúta | 64-51: Logi Gunnarsson er einnig kominn með fjórar villur og eru það slæmar fréttir fyrir heimamenn. Emil Einarsson nýtir eitt víti. Heimamenn eru að ná að halda Þór 13-15 stigum fyrir aftan sig.

27. mínúta | 63-50: Emil Einarsson skoraði þriggja stiga körfu fyrir Þór en TracySmith Jr. er einnig kominn með 19 stig. Ólafur Helgi bætir síðan við tveimur.

26. mínúta | 59-47: Raggi Nat. þarf að fá sér sæti á bekknum en hann er kominn með fjórar villur, slæmar fréttir fyrir gestina. Cook Jr. er kominn með 19 stig og hefur staðið sig hvað best hjá gestunum. Njarðvík tekur leikhlé þegar 4:18 eru eftir af leikhlutanum

25. mínúta | 59-45: Mikil barátta inní teig þessa stundina og eru bæði lið dugleg að ná sóknarfráköstum og skila þeim í körfuna. Elvar Már dúndrar síðan niður þrist, áður en Cook Jr. skorar úr löngu stökkskoti.

23. mínúta | 52-39: Gestirnir byrja hálfleikinn á 0-5 sprett áður en Hjörtur Einarsson skorar fyrir Njarðvík.

22. mínúta | 50-37: Raggi Nat. stal boltanum af Smith Jr. og gestirnir geystust í sókn það var brotið á Tómasi Tómassyni sem fékk tvö vítaskot en nýtti bara annað þeirra.

21. mínúta | 50-36: Seinni hálfleikur er hafinn. Það vakti athygli mína að einungis fjórir liðsmenn Þórs komust á blað í fyrri hálfleik, þeir þurfa framlag frá fleirum. Raggi Nat. skoraði fyrstu stig hálfleiksins og varði síðan skot frá Smith J.

20. mínúta | 50-34: Tómas Tómasson skoraði sín 10. stig og Maciej Baginski rauf síðan 50 stiga múrinn fyrir heimamenn með tveimur vítum. Njarðvíkingar náðu síðan boltanum og áttu lokaskotið sem geigaði. Þórsarar bættu leik sinn aðeins í öðrum fjórðung en Njarðvíkingar náðu samt að auka muninn í 16 stig og þannig er staðan í hálfleik.

19. mínúta | 48-32: Dæmd tæknivilla á Hjört Einarsson fyrir kjaftbrúk, hann var eitthvað ósáttur við dómgæsluna. Cook Jr. setti niður tvö víti en Þórsarar töpuðu síðan boltanum.

19. mínúta | 46-30: Tracy Smith Jr. er kominn með 15 stig og hefur farið mikinn í sókn heimamanna. Tómas Tómasson náði síðan í villu auk þess að skora og fékk víti. Það rataði hinsvegar ekki rétta leið.

18. mínúta | 43-28: Hjörtur Einarsson náði að leggja boltann í körfuna fyrir Njarðvík og fékk villu að auki, hann nýtti vítið. Þór brunaði í sókn og þar kom Ragnar Nat. á fleygiferð fékk boltann og hamraði hann í körfuna með þrumutroðslu.

18. mínúta | 40-26: Mike Cook bætir við tveimur stigum. Njarðvíkingar fara í sókn og Logi nær í villu í þriggja stiga skoti. Það eru þrjú víti. Hann nýtti bara eitt.

17. mínúta | 39-24: Logi Gunnarsson hefur farið mikinn undanfarnar mínútur, er kominn með tólf stig. Það seinasta af línunni eftir aðhafa lagt boltann ofan í og fengið villu. Mike Cook minnkar muninn í 15 stig.

15. mínúta | 34-22: Allskonar vesen á Þór Þ., hafa kastað boltanum útaf og verið með mislagðar hendur í sókninni. Þeir ná samt að minnka muninn niður í 12 stig.

14. mínúta | 34-18: Logi Gunnarsson braust í gegnum gestanna og lagði boltann ofan í, Njarðvíkingar náðu síðan boltanum og Logi setti niður þrist.

13. mínúta | 29-18: Heimamenn náðu 14 stiga mun en Sovic lokaði sprettinum hjá þeim með þriggja stiga körfu. Smith Jr. er tekinn af velli en hann er búinn að skila 12 stigum í hús.

12. mínúta | 27-15: Tracy Smith Jr. er kominn með 10 stig og verður að segjast að ef Ragnar Nat. er ekki inn á er lítil fyrirstaða fyrir hann í sókninni.

11. mínúta | 25-15: Annar fjórðungur hefst og heimamenn nýta ekki fyrstu sókn sína en Smith Jr. stelur síðan boltanum og skorar síðan sitt áttunda stig.

10. mínúta | 23-15: Liðin bættu við tveimur stigum hvort, heimamenn ætluðu sér síðan seinasta skot fjórðungsins en Elvar Már fékk dæmda á sig sóknarvillu þegar 2 sek voru eftir. Lokaskot Þórs geigaði síðan. Njarðvíkingar örlítið betri í byrjun leiks.

9. mínúta | 21-13: Þór Þ. komnir í bónus og Tómas Tómasson setur niður tvö víti og lagar stöðuna.

8. mínúta | 21-11: Þetta verður áhugavert einvígi milli Cmith Jr. og Ragga Nat. í teignum í kvöld. Maciej Baginski sekkur þriggja stiga körfu og Þór Þ. tekur leikhlé. 10 stiga munur.

7. mínúta | 16-9: Elvar Már lenti eitthvað illa og haltrar en hann virðist geta skokkað þetta af sér. Tracy Smith Jr. kemur sér síðan á blað og eyku muninn í 7 stig.

6. mínúta | 14-9: Mike Cook Jr er kominn með 6 stig og gestirnir minnka muninn í þrjú stig en Logi Gunnarss. eykur muninn aftur í 5 stig. Ragnar Nat. er síðan dæmdur brotlegur í sókninni.

4. mínúta | 10-5: Njarðvíkingar komnir fimm stigum yfir og ná svo boltanum aftur með góðri vörn.

3. mínúta | 8-5: Sovic og Cook Jr. hafa skipt milli sín stigum gestanna en Ólafur Helgi Jónsson er kominn með fjögur stig af átta hjá Njarðvíkingum.

2. mínúta | 4-3: Heimamenn skoruðu fyrstu stigin, Þór Þ. svaraði síðan með þrist frá Sovic áður en Ólafur Helgi kom heimamönnum aftur yfir.

1. mínúta | 0-0: Leikurinn er hafinn og eru það gestirnir sem hefja sókn.

Fyrir leik: Liðin hafa verið kynnt og ekkert að vanbúnaði að kasta boltanum upp.

Fyrir leik: Liðin sem mætast hérna í kvöld eru í 4. og 5. sæti deildarinnar. Njarðvíkingar verma fjórða sætið með  18 stig og Þórsarar eru í fimmta sæti með 16 stig, það er því til mikils að vinna fyrir sigurvegara kvöldsins. Njarðvíkingar geta styrkt stöðu sína í fjórða sætinu og Þór getur jafnað Njarðvíkinga að stigum vinni þeir.

Fyrir leik: Velkomin í lýsingu okkar á Vísi frá leik Njarðvíkur og Þórs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×