Handbolti

Bjarki Már með átta mörk í sigurleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Bjarki Már Elísson var í stóru hlutverki þegar að lið hans, Eisenach, vann mikilvægan sigur á Bergischer HC í þýsku úrvalsdeildinni í dag, 30-25. Hann skoraði átta mörk í leiknum.

Björgvin Páll Gústavsson stóð í marki Bergischer en Arnór Gunnarsson var ekki á meðal markaskorara liðsins.

Eisenach komst upp í ellefu stig með sigrinum en liðið er enn í sextánda og þriðja neðsta sæti deildarinnar. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari liðsins.

Minden er einu stigi á undan Eisenach en liðið vann Emsdetten í dag, 34-27. Vignir Svavarsson var ekki á meðal markaskorara Minden en Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði fimm mörk fyrir Emsdetten, Oddur Gretarsson fjögur og Ernir Arnarson eitt.

Emsdetten er sem fyrr í neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig.

Riðlakeppni EHF-bikarkeppninnar hófst í dag en þar að auki var spilað í Meistaradeild Evrópu í handbolta. Nokkur Íslendingalið voru í eldlínunni.

Ólafur Guðmundsson og félagar hans í sænska liðinu Kristianstad máttu þola tap, 37-30, fyrir Tatran Presov í Slóvakíu í C-riðli. Ólafur skoraði þrjú mörk fyrir Svíana.

Flensburg vann öruggan sigur á sænska liðinu Drott í D-riðli Meistaradeildarinnar, 33-25, en Þjóðverjarnir voru með tólf marka forystu í hálfleik, 20-8.

Ólafur Gústafsson var á skýrslu í dag en skoraði ekki fyrir Flensburg sem er í öðru sæti riðilsins með þrettán stig, einu á eftir Evrópumeisturum Hamburg.

Í C-riðli hafði Paris Handball, lið Róberts Gunnarssonar og Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar, betur gegn Metalurg Skopje, 32-29, í baráttu um annað sæti riðilsins en liðin voru jöfn með níu stig hvort fyrir leikinn. Róbert skoraði eitt mark fyrir Parísarliðið og Ásgeir Örn eitt.

Barcelona er þó með væna forystu á toppnum með fimmtán stig af sextán mögulegum eftir stórsigur á Wacker Thun í dag, 39-23.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×