Handbolti

Lærisveinar Patreks töpuðu fyrir Þjóðverjum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Patrekur varð bikarmeistari um helgina en tapaði í kvöld.
Patrekur varð bikarmeistari um helgina en tapaði í kvöld. Vísir/Getty
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka og landsliðs Austurríkis, fékk ekki mikinn tíma til að fagna bikarmeistaratitlinum með Haukum um síðustu helgi því hann stýrði Austurríki í vináttulandsleik gegn Þýskalandi í kvöld.

Lærisveinar Patreks, sem komu svo skemmtilega á óvart á EM í Danmörku, töpuðu leiknum, 22:26, en Þjóðverjar, sem ekki komust á Evrópumótið, höfðu forystuna nær allan leikinn.

Staðan í hálfleik var 10-12 fyrir Þýskalandi og í byrjun þess síðari náðu gestirnir sex marka forskoti, 14-20. Þá tók Patrekur Jóhannesson leikhlé sem skilaði sér í 5-1 spretti heimamanna og munurinn aðeins tvö mörk, 19-21, þegar rétt rúmar átta mínútur voru eftir.

Þjóðverjar voru þó sterkari á lokametrunum með SilvioHenevetter öflugan í markinu og hornamanninn PatrickGroetzki í miklu stuði en hann skoraði þrjú mörk í röð fyrir Þýskaland á lokasprettinum og átta mörk alls. Lokatölur, 22-26.

MaximillianHermann var markahæstur Austurríkismanna með fimm mörk en Robert Weber skoraði fjögur mörk. Hjá Þýskalandi var Groetzki markahæstur eins og áður segir með átta mörk en MichaelAllendorf, leikmaður Melsungen og næstmarkahæsti leikmaður þýsku 1. deildarinnar, skoraði fimm mörk.

Það er skammt stórra högga á milli hjá Patreki því nú drífur hann sig upp í flugvél og heldur heim á leið. Hans bíður annar Hafnafjarðarslagur gegn FH í Olís-deildinni á fimmtudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×