Handbolti

Fyrsta deildartap Kiel síðan í nóvember

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. Vísir/Bongarts
Alfreð Gíslason og strákarnir hans í Kiel töpuðu í kvöld sínum fyrsta leik í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta síðan í nóvember þegar þýsku meistararnir töpuðu 30-29 á útivelli á móti MT Melsungen.

Kielar-liðið var búið að vinna níu leiki í röð í þýsku deildinni eða alla leiki síðan að liðið tapaði fyrir  Flensburg-Handewitt í lok nóvember.

Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk fyrir Kiel í kvöld en Guðjón Valur Sigurðsson komst ekki á blað. Marko Vujin var markahæstur með níu mörk.

Dominik Klein kom Kiel í 28-27 þegar fjórar og hálf mínúta var eftir en leikmenn Melsungen skoruðu næstu þrjú mörk og tryggðu sér sigurinn. Niclas Ekberg minnkaði muninn rétt fyrir leikslok en þá var sigur Melsungen í höfn.

THW Kiel er með þriggja stiga forskot á Rhein-Neckar Löwen sem minnkaði forskotið með öruggum sigri í sínum leik fyrr í kvöld. MT Melsungen er í sjötta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×