Handbolti

Þið verðið myrtir ef þið tapið leik

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. vísir/afp
Serbneskir fjölmiðlar greina í dag frá ótrúlegri sögu serbnesks handboltamanns sem mátti þakka fyrir að sleppa lifandi heim frá Líbýu þar sem hann var að spila.

Hinn 21 árs gamli Nikola Mitrovic samdi við lið Al Naser í Líbýu en það átti eftir að reynast afdrifarík ákvörðun í lífi hans.

Hann var nýlentur er bandarískur þjálfari liðsins gerði vegabréf hans upptækt. Hann tjáði honum líka að liðinu væri hollast að vinna sína leiki. Annars ættu þeir á hættu að vera myrtir.

"Þjálfarinn sagði mér að það kæmi einfaldlega ekki til greina að tapa leik. Það gæti þýtt að við yrðum drepnir. Svo sá ég hina svokölluðu stuðningsmenn félagsins og þeir voru allir vopnaðir AK-47 hríðskotabyssum," sagði Mitrovic er hann var beðinn um að rifja upp dvöl sína í landinu.

Serbinn var alls sjö mánuði hjá liðinu og fékk aldrei greitt eina einustu krónu.

"Ég hefði dáið úr hungri ef ekki hefði verið fyrir nágranna mína sem voru frá Sýrlandi. Þeir áttu matvörubúð og gáfu mér mat. Þau hjálpuðu mér einnig að flýja."

Það var það eina sem komst að hjá leikmanninum. Að komast úr landinu. Hann var reyndar ekki einn um það því bandaríski þjálfarinn og samlandi hans sem spilaði með liðinu reyndi það líka.

Áður en þjálfaranum tókst að flýja land lét hann Mitrovic fá vegabréfið sitt. Hann komst úr landi mánuði síðar og ætlar víst ekki aftur til Líbýu.

Mitrovic heldur því fram að annar Bandaríkjamaður, sem hafi einnig spilað með liðinu, hafi verið myrtur meðan þeir spiluðu báðir með Al Naser.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×