Handbolti

Dujshebaev: Ég gerði ekkert rangt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson og Talant Dujshebaev.
Guðmundur Guðmundsson og Talant Dujshebaev. Vísir/Getty
Talant Dujshebaev, þjálfari pólska liðsins Kielce, er enn bálreiður út í Guðmund Guðmundsson, þjálfara Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi.

Í ítarlegu viðtali við pólska blaðið Super Express stendur hann fast á sínu og ítrekar að Guðmundur hafi komið fram með óviðeigandi hætti í leik liðanna í Meistaradeild Evrópu um helgina.

Guðmundur sagði eftir leik að Dujshebaev hefði slegið sig fyrir neðan beltisstað og virðast myndbandsupptökur styðja það, eins og áður hefur verið fjallað um. Dujshebaev fór svo mikinn á blaðamannafundi og sakaði þar Guðmund um ósæmilega hegðun.

Rhein-Neckar Löwen kærði atvikið til Handknattleikssambands Evrópu sem hóf rannsókn á Dujshebaev. Von er á skjótri málsmeðferð þar sem liðin eigast við í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitum í Þýskalandi á mánudagskvöld.

„Nú vilja þeir dæma mig úr leik og kannski drepa mig líka? Leyfum þeim að byrja með 10-0 forystu í seinni leiknum,“ er haft eftir Dujshebaev.

„Já, ég hljóp upp að honum eftir leikinn en ekki bara til að slást. Ég sagði honum hvað mér fannst um hegðun hans. Ég hef séð ýmislegt áður en aldrei fyrr það sem hann gerði.“

„Ég sýndi svo á blaðamannafundinum hvað þessi herramaður gerði. Á meðan leiknum stóð horfði hann skyndilega á mig, greip um klofið sitt og lyfti svo höndinni upp að vörunum sínum. Ég varð agndofa.“

Guðmundur svaraði umsvifalaust fyrir sig á blaðamannafundinum og sakaði Dujshebaev um lygar. Hann gerði slíkt hið sama í viðtali við Vísi síðar þennan dag og hefur haldið fast við sitt síðan þá.

„Ég fór upp að honum og sagði að þetta bæri vott um virðingarleysi. Ég hef alltaf tekið í hönd annarra þjálfara og dómara eftir leiki. Það gerði hann ekki. Svo sakaði hann mig um lygar sem ber enn merki um virðingarleysi.“

Blaðamaður Super Express spurði Dujshebaev hvort að hann hafi ætlað sér að kalla hann Guðmundsson Guðmundsson, líkt og hann gerði á blaðamannafundinum, og hvort hann hefði gert það til að ögra Guðmundi.

„Nei, íslenskan mín er ekki fullkomin. Eftirnafn mitt er líka öðruvísi borið fram í Þýskalandi. En það var ekki ætlunin að móðga neinn með slíkum hlutum.“

Dujshebaev var heldur ekki ánægður með framgöngu þýskra fjölmiðla í þessu máli. „Þeir taka hans hlið í þessu máli og stýra umræðunni í þessu máli. Ég vil að pólskir fjölmiðlar verji okkar málstað. Sá seki er íslenski þjálfarinn sem varð sér til skammar. Ég gerði ekkert rangt. Ekkert!“

„Þýskir fjölmiðlar hafa gert hann að engli en mig að djöfli. Það er mikil hræsni. Farið yfir hegðun Guðmundssonar. Hann hefur gert margt umdeilt í þýsku úrvalsdeildinni og sem landsliðsþjálfari Íslands. Glæpalisti hans er langur.“

Dujshebaev veit ekki við hverju hann eigi við að búast á mánudagskvöldið en Kielce er með fjögurra marka forystu eftir fyrri leikinn. Hann veit ekki hvort hann muni taka í hönd Guðmundar eftir leikinn.

„Ég veit ekki hvað gerist. Ég veit bara að það verður heitt í kolunum.“


Tengdar fréttir

Rannsókn hafin á Dujshebaev

Handknattleikssamband Evrópu, EHF, staðfestir á heimasíðu sinni í dag að dómstóll sambandsins muni taka mál Talant Dujshebaev fyrir.

Forseti Kielce: Við munum verja okkur

Ekkert virðist marka meinta afsökunarbeiðni sem forráðamönnum Rhein-Neckar Löwen á að hafa borist eftir leik liðsins gegn Kielce um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×