Handbolti

Flensburg hafði yfirburði gegn Löwen

Alexander í baráttunni í dag.
Alexander í baráttunni í dag. vísir/getty
Það verður ekkert af íslenskum þjálfaraslag í úrslitum þýsku bikarkeppninnar. Lið Guðmundar Guðmundssonar, Rhein-Neckar Löwen, tapaði, 30-26, gegn Flensburg í fyrri undanúrslitaleik dagsins.

Flensburg tók frumkvæðið strax í upphafi. Mattias Andersson lokaði búrinu og leikmenn Löwen í vandræðum með að skora. Flensburg leiddi í hálfleik, 16-12.

Þessu forskoti héldu leikmenn Flensburg í síðari hálfleik. Það var sama hvað Löwen reyndi. Það gekk ekkert að saxa almennilega á forskotið.

Alexander Petersson átti frábæran leik fyrir Löwen og skoraði sex mörk. Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði eitt en hefði að ósekju mátt spila meira þar sem Uwe Gensheimer fann sig ekki. Ólafur Gústafsson kom ekkert við sögu hjá Flensburg.

Füchse Berlin og Melsungen mætast í síðari undanúrslitaleiknum klukkan 16.00.

Stefán Rafn fagnar marki sínu í dag.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×