Handbolti

Aron Rafn góður þegar Guif vann tvíframlengdan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Rafn Eðvarðsson.
Aron Rafn Eðvarðsson. Mynd/HSÍ/Hilmar Þór Guðmundsson
Lærisveinar Kristjáns Andréssonar í Eskilstuna Guif eru komnir í 1-0 í undanúrslitaeinvígi sínu á móti Alingsås HK eftir þriggja marka sigur í æsispennandi fyrsta leik seríunnar í kvöld.

Eskilstuna var á heimavelli og vann Alingsås 34-31 eftir tvíframlengdan leik en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í lokaúrslitum um sænska meistaratitilinn.

Aron Rafn Eðvarðsson stóð sig vel í marki Eskilstuna Guif og varði 15 af 45 skotum (33 prósent markvarsla) þar af var eitt víti.

Línumaðurinn Heimir Óli Heimisson skoraði eitt mark í leiknum en markahæstur hjá Guif-liðinu var Viktor Östlund með áttamörk.

Guif var 11-10 yfir í hálfleik og var með forystuna allan seinni hálfleikinn. Guif missti niður þriggja marka forskot á lokamínútunum og Alingsås kom leiknum í framlengingu.

Aron Rafn átti mikinn þátt í að Guif kom leiknum í aðra framlengingu þegar hann varði tvö síðustu skot Alingsås í fyrstu framlengingunni en Alingsås-liðið var þá komið tveimur mörkum yfir.

Guif tók síðan forystuna í seinni framlengingunni og tryggði sér nauðsynlegan sigur og 1-0 forystu í undanúrslitaeinvíginu.

Eskilstuna-liðið vann Redbergslids 3-0 í átta liða úrslitunum og hefur því unnið fyrstu fjóra leiki sína í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×