Skoðun

Öruggt húsnæði fyrir alla

Hreiðar Eiríksson skrifar
Á yfirstandandi kjörtímabili hefur Reykjavíkurborg aðeins keypt 67 félagslegar leiguíbúðir þrátt fyrir að heimild sé fyrir því að kaupa 100 íbúðir á hverju ári, eins og kemur fram á heimasíðu Félagsbústaða í Reykjavík. Þessar íbúðir hafa hvergi nærri nægt til að mæta þeim bráða húsnæðisvanda sem er í Reykjavík enda býr fjöldi fólks í ólöglegu iðnaðarhúsnæði í borginni. Þetta ástand hefur varað um árabil án þess að á því hafi verið tekið.

Börn eiga ekki að búa í iðnaðarhúsnæði

Húsnæðisvandinn bitnar helst á þeim sem minnst mega sín. Fjölmiðlar hafa birt fréttir af efnalitlum, einstæðum, mæðrum sem neyðst hafa til að flytja inn í ólöglegt iðnaðarhúsnæði með börn sín. Mörg dæmi eru um einhleypa meðlagsgreiðendur sem búa í iðnaðarhúsnæði eða bílskúrum án hreinlætisaðstöðu og annars sem flest okkar teljum tilheyra eðlilegu lífi. Í slíkum vistarverum er ekki hægt að hafa börn og það raskar umgengni barnanna við foreldra sína, börnunum til tjóns.

Tafarlausra aðgerða er þörf

Einn hópur býr við sérstaklega sára neyð. Það eru konur sem hafa þurft að flýja heimili sín vegna heimilisofbeldis. Oft eiga þær börn sem þær taka með sér á flóttanum og margar þeirra leita skjóls hjá Samtökum um kvennaathvarf sem vinna lofsvert og óeigingjarnt starf í þágu fórnarlamba heimilisofbeldis. Því miður er þörfin fyrir athvarfið mjög mikil og því þurfa konurnar mögulega á endanum að velja milli þess að lenda á hrakhólum með börn sín eða snúa aftur á heimili ofbeldismannsins. Það er erfitt að hugsa til þess að þetta séu einu valkostirnir fyrir þessar konur og börn þeirra.

Í komandi borgarstjórnarkosningum mun ég kjósa það framboð sem lofar að bæta úr þessu ástandi og hefur getu og vilja til að fylgja eftir því loforði.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×