Skoðun

(Vaxandi) hatur í garð múslíma

Eyrún Eyþórsdóttir skrifar
Áður fyrr fann skortur á umburðarlyndi og fordómar sér farveg í gyðingahatri. Nú á dögum birtast fordómar einna helst í andúð á íslam.

Þegar byggingarland mosku var smánað í nóvember síðast liðnum virtist lögreglunni ekki liggja á að rannsaka málið þrátt fyrir að tjáning kynþáttahaturs og annarra fordóma sé bönnuð og refsiverð samkvæmt íslenskum lögum. Í tengslum við smánunina kom upp á yfirborðið djúpstæð andúð meðal margra Íslendinga í garð múslíma. Þessi andúð birtist skírt í hatursfullri umræðu í ummælakerfium netmiðla, en einnig á síðum dagblaða. Nýjasta dæmið um þessa andúð er málflutningur oddvita Framsóknaflokksins í Reykjavík sem tekur sér stöðu með níði gegn múslímum þegar hún tekur undir kröfur um að múslímum sé meinað að byggja mosku.

Það er brýnt að uppræta þekkingaleysi um íslam og múslíma. Það er jú þekkingarleysið sem er rót fordómana og skapar hatursfulla umræðu og viðhorf. Þá er mikilvægt að sporna gegn hræðslu fólks gagnvart íslam sem byggir að mestu á úreltum staðalímyndunum og sleggjudómum. Veit oddviti Framsóknaflokksins til dæmis ekki að hluti múslíma á Íslandi eru bornir og barnsfæddir Íslendingar sem hafa valið að skipta um trú? Ekki að það skipti þó máli þegar öllu er á botnin hvolft!

Fordómar í garð múslíma og íslam er raunverulegt vandamál sem við verðum að taka á. Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (ECRI) hefur gert athugasemdir við viðhorfi hérlendis til íslam og hefur ítrekað gagnrýnt harðlega hversu lengi múslimar hafa þurft að bíða eftir byggingalóð undir mosku.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð grundvallar stefnu sína á jöfnum rétti allra án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, litarháttar, uppruna eða félagslegrar stöðu. Það er gríðarlega mikilvægt að allir geri sér grein fyrir þeim hættum sem samfélaginu stafar af auknum fordómum og umburðarleysi. Vinstri Græn vilja styðja enn betur við mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur og grasrótarsamtök sem berjast gegn kynþáttahatri og umburðarleysi og halda áfram að berjast  fyrir bættu samfélagi sem byggist á jöfnuði allra. Þá styðja Vinstri græn byggingu mosku í Sogamýri og rétt alls fólks til að stunda sín trúarbrögð. Líka íslam.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×