Körfubolti

Magnús Þór samdi við Grindavík | Vildi spila fyrir Sverri Þór

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Þór Gunnarsson.
Magnús Þór Gunnarsson. Vísir/Daníel
Stórskyttan Magnús Þór Gunnarsson hefur ákveðið að yfirgefa Keflavík og spila með nágrönnunum í Grindavík í Dominos-deild karla í körfubolta á næsta tímabili. Þetta staðfestir hann við karfan.is.

Magnús Þór nær þar með að spila með öllum þremur Suðurnesjaliðunum en hann hafði áður spilað með Njarðvík í tvö tímabil frá 2008 til 2010. Magnús er uppalinn Keflvíkingur þar sem hann hefur spilað stærsta hluta síns ferils.  

„Ástæða skiptanna er sú að Grindavík hafði samband en það hafa þeir ekki gert áður og ég hafði í raun mikinn áhuga á því að spila fyrir Sverri Þór. Eins hlakka ég til að takast á við nýjar áskoranir og þakka Keflavík fyrir tímann þar,“ sagði Magnús við karfan.is. Hann og Sverrir Þór urðu fjórum sinnum Íslandsmeistarar saman með Keflavíkurliðinu.

Magnús Þór Gunnarsson var með 9,5 stig og 2,5 stoðsendingar að meðaltali í deildarkeppninni en missti þá mikið úr vegna meiðsla á hendi. Hann hækkaði meðalskorið sitt upp í 13,7 stig í leik í úrslitakeppninni en Keflavík datt þá út á móti Stjörnunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×