Handbolti

Jurkiewicz hetja Pólverja

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mariusz Jurkiewicz tryggði Póllandi sigur á Þýskalandi í dag.
Mariusz Jurkiewicz tryggði Póllandi sigur á Þýskalandi í dag.
Pólland vann eins marks sigur, 25-24, á Þýskalandi í fyrri leik liðanna um sæti á HM 2015 í Katar í dag.

Þjóðverjar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og náðu mest fimm marka forystu, 5-10, um miðbik hans. Pólverjar náðu minnka muninn í þrjú mörk fyrir hálfleik, en staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja var 9-12, gestunum í vil.

Pólverjar jöfnuðu leikinn og komust í fyrsta sinn yfir þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Þeir komust fljótlega þremur mörkum yfir, en Þjóðverjarnir unnu sig aftur inn í leikinn og við tóku spennandi lokamínútur.

Tim Knuele jafnaði metin í 24-24 þegar tvær og hálf mínúta lifðu leiks, en það var Mariusz Jurkiewicz sem skoraði sigurmark Póllands þegar aðeins fimm sekúndur voru eftir af leiknum.

Jurkiewicz var markhæstur Pólverja með sjö mörk, en næstur kom línumaðurinn Bartosz Jurecki með sex. Michael Kraus skoraði mest fyrir Þýskaland, eða fimm mörk.

Fyrr í dag vann Rússland Litháen með 30 mörkum gegn 22. Staðan í hálfleik var 14-11, Rússum í vil.

Sergey Shelmenko og Dmitry Kvalev skoruðu sex mörk hvor fyrir Rússland, en Aidenas Malasinskas var markahæstur Litháa, einnig með sex mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×