Handbolti

Þjálfari Bosníu ætlar að koma Aroni á óvart

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bosníu-menn í leik gegn Finnum.
Bosníu-menn í leik gegn Finnum. vísir/afp
Þjálfari Bosníu, Dragan Markovic, er brattur fyrir leikinn gegn Íslandi á morgun en hann hefur fulla trú á sínu liði.

„Ég er búinn að segja þetta nokkrum sinnum áður að Ísland er með frábært lið sem spilar frábæran handbolta. Þeir eiga fullt af góðum leikmönnum en ég er samt lítið að hugsa um þá. Ég einbeiti mér að mínu liði og verð með ýmislegt sem á eftir að koma Aroni Kristjánssyni á óvart,“ sagði Markovic kokhraustur á blaðamannafundi í Sarajevo í gær.

Markovic telur sig vera með mjög gott lið í höndunum þó svo það vanti þeirra besta mann, Mirsad Terzic, sem spilar með Veszprém.

„Við eigum fullt af mönnum í hverja stöðu og ég hef verið mjög ánægður með þeirra frammistöðu. Auðvitað er Terzic okkur mjög mikilvægur en við höfum spilað án hans áður og kunnum það. Þetta er ekkert flókið, við verðum bara að taka á því án hans. Ísland verður líka án Arons Pálmarssonar en þeir eiga góða menn til að leysa hann af.“

Bosnía hefur aldrei náð að tryggja sér farseðilinn á stórmót en hefur færst nær því á undanförnum árum.

„Það er okkar draumur að komast á HM og ég trúi því að við munum því markmiði núna.“

Leikurinn hefst klukkan 18.15 á morgun og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Hann verður einnig í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×