Handbolti

Logi getur ekki horft á landsliðið spila

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Logi í leik með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.
Logi í leik með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Vísir/Getty
Logi Geirsson segir að það hafi verið mikið áfall að hafa neyðst til að leggja skóna á hilluna vegna meiðsla.

Logi var í íslenska landsliðshópnum sem vann brons á EM í Austurríki árið 2010 en hefur lítið spilað síðan þá vegna þrálátra meiðsla.

„Ég hef ekki tölu á því hvað ég hitti marga lækna, um allan heim. Ég reyndi allt og þetta var gríðarlegt sjokk,“ sagði Logi í ítarlegu viðtali við Fréttatímann í dag.

„Ég hef ekki getað horft á handbolta síðan og hef í raun ekki ennþá komist yfir þetta,“ sagði Logi. „Fólk heldur að maður fylgist með landsliðinu og svoleiðis en ég hef ekki getað horft á það í nokkur ár.“

Logi ræðir einnig um fasteignaviðskipi sín í Þýskalandi en hann var á sínum tíma eigandi nítján íbúða þar í landi. Hann segir að hann hafi fjárfest fyrir 2,6 milljónir evra og að það hafi tekið fjögur ár að vinda ofan af því. Í dag er ekkert á hans snærum í Þýskalandi.

„Maður var bara 26 ára og athyglissjúkasti íþróttamaður landsins, leiddist ekkert öll sú umfjöllun sem maður fékk.“

„En þegar þetta gerðist þá lokaðist ég algjörlega, gat ekki talað við fjölmiðla sem reyndu mikið að tala við mig og gríðarlega margir komplexar í gangi.“

Logi er nýútskrifaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Bifröst og ræðir í viðtalinu um lokaverkefni sitt sem snýr að greiningu á alþjóðavæðingu samfélagsmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×