Körfubolti

Jakob Örn verður ekki með landsliðinu í sumar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson í landsleik gegn Ísrael.
Jakob Örn Sigurðarson í landsleik gegn Ísrael. vísir/daníel
KKÍ sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem kynntur er fyrsti æfingahópur CraigPedersens, nýs landsliðsþjálfara í körfubolta.

Þrjátíu leikmenn mæta til æfinga en úr þeim hópi verður lokahópurinn valinn sem leikur í undankeppni EM 2015 í sumar.

Það kom eflaust fáum á óvart að sjá nafn Jakobs Arnar Sigurðarsonar í hópnum enda Jakob verið einn besti leikmaður þjóðarinnar um árabil og lykilmaður í íslenska liðinu.

Hann verður þó ekki með landsliðinu í sumar og kom honum nokkuð á óvart að sjá nafn sitt á blaði. „Ég verð ekki með og þeir vita af því,“ segir Jakob Örn í samtali við Vísi.

Það er mikið áfall fyrir íslenska liðið að vera án leikstjórnandans, sem leikur með Sundsvall í sænsku úrvalsdeildinni og er einn besti leikmaðurinn í Svíþjóð. En af hverju verður hann ekki með.

„Mér finnst löngunin ekki 100 prósent til staðar. Þá finnst mér ekki rétt gagnvart hinum strákunum og KKÍ að vera með. Ef ég ætla ekki að vera með af fullum krafti er betra að velja einhvern annan,“ segir Jakob Örn sem ætlar að einbeita sér að öðrum hlutum í sumar.

„Ég set fókusinn á fjölskylduna. Ég er með tvo unga stráka sem ég ætla einbeita mér að. Hugurinn er bara meira þar núna,“ segir Jakob Örn Sigurðarson.

Fyrsti heimaleikur Íslands verður í Laugardalshöllinni 10. ágúst gegn Bretlandi.


Tengdar fréttir

Æfingahópur landsliðsins í körfubolta klár

Þjálfarar íslenska karlalandsliðsins í körfubolta völdu í dag 30 leikmanna æfingahóp fyrir verkefnin sem framundan eru. Íslenska liðið mætir Bretlandi og Bosníu í undankeppni Evrópumótsins í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×