Handbolti

Ísland með Makedóníu og Ítalíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari íslenska landsliðsins.
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari íslenska landsliðsins. Vísir/Stefán
Ísland er í riðli með Makedóníu og Ítalíu í forkeppni HM kvenna sem fer fram í Danmörku í lok næsta árs.

Dregið var í riðla í morgun en alls voru fjórtán lið í pottinum og var þeim skipt í fjóra riðla. Sigurvegari hvers riðils kemst í umspil fyrir lokakeppnina á næsta ári.

Liðum er heimilt að koma sér saman um að spila alla leikina á einum ákveðnum stað og þá annað hvort í lok nóvember eða byrjun desember á þessu ári. Að öðrum kosti spila liðin heima og að heiman með reglulegu millibili í haust.

Dregið verður í umspilið fyrir úrslitaleikinn í EM kvenna sem fer fram í Króatíu og Ungverjalandi í desember. Ljóst er að Ísland verður þar í neðri styrkleikaflokki ef liðið kemst áfram úr forkeppninni.

Ísland og Makedónía spiluðu bæði síðast í lokakeppni stórmóts á EM í Serbíu árið 2012. Bæði lið töpuðu öllum sínum leikjum í riðlakeppninni en Ísland hafnaði í fimmtánda sæti keppninnar og Makedónía því sextánda.

Besti árangur Makedóníu í lokakeppni stórmóts var sjöunda sætið á EM árið 2008 og sjöunda sætið á HM árið 1997. Flestir leikmenn liðsins leika með ZRK Metalurg í heimalandinu.

Ítalía hefur einu sinni komist í lokakeppni stórmóts en það var á HM árið 2001. Þar hafnaði liðið í sextánda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×