Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins fer fyrir nefndinni. Hann segir að lengi hafi legið fyrir að ráðast þurfi í breytingar á núverandi greiðsluþátttökukerfi sem sé allt of flókið. Búa verði til eitt kerfi fyrir alla, burtséð frá stétt og stöðu.
„Þetta er í rauninni um 30-40 mismunandi greiðsluþátttökukerfi, sum með hámarki, önnur ekki. Kerfið er mjög illskiljanlegt og ekki nema örfáir menn sem skilja það til hlýtar,“ segir Pétur.
En Pétur segir að það sé ekki eini hvatinn til þess að gera úrbætur.
„Nei, vegna þess að það er ekkert hámark í núverandi kerfi þá er sumt fólk, sérstaklega langveikir, gigtarsjúklingar, sykursjúkir, krabbameinssjúklingar o.s.frv. að þeir geta verið að borga óhemju fé, mörg hundruð þúsund krónur á hverju ári og það er í raun ekki viðundandi.“
Nefndin sem Pétur fer fyrir var skipuð í fyrra og standa vonir til að hún skili af sér tillögum á næstunni. Beðið er eftir gögnum frá heilbrigðisráðuneytinu sem verið sé að taka saman.

„Hvað er hámarkið í þínum huga?“
„Ef ég hefði þessi gögn sem koma í næstu viku þá gæti ég sagt þér það en ég hugsa að það sé svona um 120 þúsund krónur á ári, 10 þúsund krónur á mánuði.“
En ef fyrirhugaðar breytingar verða ekki fjármagnaðar með auknum framlögum úr ríkissjóði þýða þær að ef einhver þarf að borgar minna þarf annar að borga meira.
„Þá munum væntanlega þurfa að greiða fyrsta kostnað að fullu og því finnst mér að það verði að nást um það samstaða í nefndinni og í þjóðfélaginu að við viljum taka á okkur þann kostnað fyrir mikið veika og langveika,“ segir Pétur Blöndal.