Körfubolti

Nítján ár frá þeim fyrsta - kemur sá þúsundasti í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Páll Axel Vilbergsson varð Íslandsmeistari með Grindavík.
Páll Axel Vilbergsson varð Íslandsmeistari með Grindavík. Vísir/Daníel
Páll Axel Vilbergsson, fyrrverandi fyrirliði Íslandsmeistara Grindavíkur, er aðeins tveimur þriggja stiga körfum frá því að brjóta þúsund þrista múrinn í úrvalsdeild karla í körfubolta.

Páll Axel spilar nú með Skallagrími og hann gæti skrifað kafla í sögu úrvalsdeildarinnar í beinni á Stöð 2 Sport í kvöld þegar Skallagrímur tekur á móti Snæfelli í Vesturlandsslag í 3. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta.

Páll Axel hefur skorað 998 þriggja stiga körfur í 387 leikjum sínum í úrvalsdeild karla en hann sló þriggja stiga körfu met Guðjóns Skúlasonar á síðasta tímabili.

Páll Axel er að verða 37 ára gamall í byrjun næsta árs en hann raðaði niður þristum á síðustu leiktíð og er búinn að skora fimm þriggja stiga körfur í fyrstu tveimur umferðunum. Haldi hann því meðaltali dettur þúsundasti þristurinn í "Fjósinu" í kvöld.

Páll Axel skoraði fyrstu þriggja stiga körfu sína með Grindavík í sigri á Breiðabliki 29. október 1995 eða fyrir rétt tæpum 19 árum. Hann var búinn að reyna þriggja stiga skot í fjórum leikjum fyrir þann tíma en nú hitti hann og síðan hafa 997 skot til viðbótar farið sömu leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×