Handbolti

Ortega verður ennþá þjálfari þegar Aron Pálmars kemur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson í leik á móti Veszprém á síðustu leiktíð.
Aron Pálmarsson í leik á móti Veszprém á síðustu leiktíð. Vísir/Getty
Spánverjinn Antonio Carlos Ortega hefur framlengt samning sinn við ungverska stórliðið MKB Veszprém en nýr samningur Spánverjans er til ársins 2017.

Aron Pálmarsson er á leiðinni til MKB Veszprém og spilar með liðinu frá og með næsta hausti en íslenski landsliðsmaðurinn, sem er að klára sitt síðasta tímabil með Kiel, gerði þriggja ára samning við Veszprém síðasta sumar (frá 2015-2018).

Antonio Carlos Ortega tók við liði Veszprém árið 2012 og er því á sínu þriðja ári með liðið. Veszprém vann tvöfalt undir hans stjórn bæði vorið 2013 og vorið 2014. Javier Sabate verður áfram aðstoðarmaður hans.

Veszprém fór í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar á hans fyrsta ári og komst alla leið í undanúrslit keppninnar á síðasta tímabili. Liðið ætlar sér enn lengra í vetur.  

Veszprém-liðið hefur unnið sex fyrstu leiki sína í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á þessari leiktíð þar á meðal sigra gegn franska liðinu Montpellier (30-29) og þýska liðinu Rhein-Neckar Löwen  (27-24).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×