Handbolti

Kiel eltir ljónin eins og skugginn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Johan Sjöstrand var öflugur í marki Kiel.
Johan Sjöstrand var öflugur í marki Kiel. vísir/getty
Kiel jafnaði Rhein-Neckar Löwen að stigum á toppi þýsku 1. deildarinnar í handbolta í dag með því að leggja Gummersbach með sex marka mun á heimavelli, 33-27.

Kiel komst í 4-2 í byrjun leiks en gestirnir í Gummersbach svöruðu því með 7-2 kafla og voru komnir yfir, 9-6. En þá tóku meistararnir við sér og voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13-11.

Í seinni hálfleik var aldrei spurning um hvort liðið myndi vinna, en meistararnir voru mun betri aðilinn í leiknum.

Gunnar Steinn Jónsson skoraði eitt mark fyrir Gummersbach og var öflugur bæði í vörn og sókn fyrir sína menn.

Aron Pálmarsson var hvíldur og sat allan tímann á tréverkinu hjá Kiel, en Steffen Weinhold var markahæstur hjá meisturunum með átta mörk.

Rhein-Neckar Löwen og Kiel eru bæði með 28 stig á toppi þýsku 1. deildarinnar, sex stigum á undan Flensburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×