Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - ÍR 95-82 | Frábær seinni hálfleikur heimamanna

Ingvi Þór Sæmundsson í Ásgarði skrifar
Jarrid Frye sækir að körfu ÍR í kvöld.
Jarrid Frye sækir að körfu ÍR í kvöld. vísir/stefán
Stjarnan bar sigurorð af ÍR, 95-82, í Ásgarði í 16-liða úrslitum Powerade-bikars karla í körfubolta. Leikurinn var sveiflukenndur í meira lagi, en Stjörnumenn spiluðu betur í seinni hálfleik og tryggðu sér farseðilinn í átta-liða úrslit bikarkeppninnar.

Stefán Karlsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Ásgarði í kvöld og tók myndirnar sem fylgja umfjölluninni.

ÍR-ingar voru með yfirhöndina í fyrri hálfleik þar sem Stjörnumenn náðu aldrei forystunni.

Breiðhyltingar voru duglegir að koma boltanum inn á Trey Hampton sem skoraði 16 stig í fyrri hálfleik og gerði heimamönnum lífið leitt undir körfunni, sérstaklega í fyrsta leikhluta.

Þá var Matthías Orri Sigurðarson, stigahæsti leikmaður ÍR í vetur, heitur fyrir utan þriggja stiga línuna, en hann setti niður þrjá þrista í fyrri hálfleik, einum færri en allt Stjörnuliðið.

Staðan var 20-23 eftir fyrsta leikhluta, en Justin Shouse, leikstjórnandi Stjörnunnar, sá til þess að munurinn var aðeins þrjú stig með því að skora fimm síðustu stig leikhlutans.

Stjörnumenn náðu loks að jafna tveimur og hálfri mínútu fyrir leikhlé, en það voru gestirnir sem áttu síðasta orðið í leikhlutanum, skoruðu sjö síðustu stig hans og leiddu með sjö stigum, 42-49, í hálfleik.

Justin Shouse með Matthías Orra Sigurðarson á eftir sér.vísir/stefán
ÍR byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og Breiðhyltingar voru fljótlega komnir með 14 stiga forystu, 43-57.

Stjörnumenn voru þó fljótir á fætur eftir þessi þungu högg ÍR-inga í byrjun seinni hálfleiks. Þeir söxuðu jafnt og þétt á forskot gestanna og komust í fyrsta sinn yfir í leiknum, 74-72, þegar Dagur Kár Jónsson setti niður þriggja stiga körfu.

Dagur leiddi endurkomu Stjörnunnar sem leiddi með sex stigum, 70-64, fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Stjörnumenn höfðu mikla yfirburði í fráköstunum í leiknum, þá sérstaklega í seinni hálfleik. Garðbæingar tóku alls 59 fráköst gegn 36 hjá ÍR og það reyndist þungt á metunum.

ÍR skoraði fjögur fyrstu stig fjórða leikhluta, en áhlaup þeirra voru aldrei nógu kröftug til að ógna forystu Stjörnuliðsins verulega. Garðbæingar áttu alltaf svör og unnu að lokum 13 stiga sigur, 95-82.

Justin var stigahæstur í liði Stjörnunnar í kvöld með 23 stig, en Dagur kom næstur með 20 stig. Jarrid Frye var einnig öflugur í seinni hálfleik og lauk leik með 18 stig, 11 fráköst og sex stoðsendingar. Þá skoraði Marvin Valdimarsson 16 stig.

Hampton var atkvæðamestur í liði ÍR með 22 stig og 15 fráköst. Hann skoraði hins vegar aðeins sex stig í seinni hálfleik, þökk sé góðum varnarleik Stjörnunnar. Matthías kom næstur hjá Breiðhyltingum með 19 stig.

Stjarnan-ÍR 95-82 (20-23, 22-26, 28-15, 25-18)

Stjarnan: Justin Shouse 23/5 fráköst, Dagur Kár Jónsson 20/5 fráköst/6 stoðsendingar, Jarrid Frye 18/11 fráköst/6 stoðsendingar, Marvin Valdimarsson 16/4 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 8/8 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 6/10 fráköst, Ágúst Angantýsson 4/8 fráköst.

ÍR: Trey Hampton 22/15 fráköst, Matthías Orri Sigurðarson 19, Sveinbjörn Claessen 12/4 fráköst, Vilhjálmur Theodór Jónsson 12, Kristján Pétur Andrésson 11/4 fráköst, Hamid Dicko 4, Ragnar Örn Bragason 2.

Hrafn Kristjánsson ræðir við sína menn í kvöld.vísir/stefán
Hrafn: Framkvæmdum varnarleikinn betur í seinni hálfleik

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum ánægður með sigurinn á ÍR í kvöld og um leið farseðilinn í átta-liða úrslit Powerade-bikarsins. Hann var þó langt frá því að vera ánægður með fyrri hálfleikinn, þar sem ÍR-ingar voru sterkari aðilinn.

"Það var skammarlegt hvernig við komum inn í þennan leik. Við létum dómarana og aðra slíka þætti fara í taugarnar á okkur, hluti sem komu leikmönnunum ekkert við.

"Við ræddum það í hálfleik að við værum ekki að spila þennan leik eins og við vildum halda áfram í bikarnum.

"Strákarnir komu síðan brjálaðir út í seinni hálfleikinn, loksins sá maður menn öskra á hvor annan, byrja að tala við áhorfendurna og þá kom þetta fljótlega," sagði Hrafn sem var ánægður með vörnina sem Stjarnan spilaði á Trey Hampton, leikmann ÍR, í kvöld.

"Stóru mennirnir mínir komu ofboðslega sterkir inn í seinni hálfleikinn og spiluðu góða vörn á móti Hampton. Þá er ég að tala um Tómas (Þórð Hilmarsson), Ágúst (Angantýsson) og Jón (Orra Kristjánsson).

"Það var lykilatriði. Hann þreyttist náttúrulega aðeins í seinni hálfleik, en við framkvæmdum varnarleikinn betur en við gerðum í fyrri hálfleik. Við náðum að taka frá honum styrkleikana og stýra honum í veikleikana," sagði Hrafn að lokum.

Bjarni Magnússon með eldræðu í einu leikhléinu.vísir/stefán
Bjarni: Þurfum að stíga þetta síðasta skref

Bjarni Magnússon, þjálfari ÍR, sá ýmislegt jákvætt í leik síns liðs, þrátt fyrir tapið gegn Stjörnunni í kvöld.

"Ég á eftir að fara yfir þetta, en það kom smá hökt á okkur sóknarlega. Aðalmunurinn lá samt í sóknarfráköstunum. Þeir tóku svipuð skot og í fyrri hálfleik, en þeir tóku sóknarfráköst trekk í trekk.

"Það drap tempóið í okkar leik og dró tennurnar úr okkur. Við töpuðum þessum leik aðallega á sóknarfráköstum.

"Menn lögðu vinnu í varnarleikinn en það vantaði að klára vörnina allt til enda. Fráköst snúast aðallega um vilja og það var meiri vilji í Stjörnunni í seinni hálfleik en okkur," sagði Bjarni sem vill sjá ÍR-liðið klára jafna leiki en oftar en það hefur gert.

"Fyrri hálfleikur var mjög góður, en ég er orðinn svo fúll yfir því að við erum oft að spila mjög vel og annað, en klárum ekki leikina. Þetta er uppi í kollinum á okkur og það er eitthvað sem við verðum að finna lausnir á.

"Við þurfum að stíga þetta síðasta skref," sagði Bjarni að endingu.

Leiklýsing:

Leik lokið | 95-82 |
Jón Orri setur punktinn aftan við frábæran seinni hálfleik hjá Stjörnunni. 13 stiga sigur staðreynd.

40. mín | 89-82 |
Stjörnumenn eru á leið í átta-liða úrslitin. Þetta er bara of mikil munur þegar hálf mínúta er eftir.

38. mín | 85-78 |
Justin neglir niður þristi, en Kristján svarar með öðrum slíkum. Tvær mínútur eftir. Marvin fékk sína fimmtu villu áðan og hefur því lokið leik í kvöld.

37. mín | 80-71 |
Níu stiga munur þegar 3:47 eru eftir af leiknum. Justin er stigahæstur hjá Stjörnunni með 17 stig, en Dagur og Marvin eru báðir með 16 stig. Hampton er enn atkvæðahæstur hjá ÍR með 18 stig og 14 fráköst.



36. mín | 76-68 |
Sex stig í röð frá heimamönnum. Ágúst er búinn að slökkva í Hampton sem hefur ekki getað keypt sér körfu í seinni hálfleik.

33. mín | 70-68 |
Marvin fær sína fjórðu villu. Það eru vondar fréttir fyrir Garðbæinga. Stjarnan er að vinna frákastabaráttuna 49-33!

31. mín | 70-66 |
Matthías skorar fyrstu stig fjórða leikhluta og stelur síðan boltanum.

Þriðja leikhluta lokið | 70-64 |
Stjarnan leiðir með sex stigum fyrir lokaleikhlutann. Þvílíkur viðsnúningur á þessum leik. ÍR komst mest 14 stigum yfir í byrjun 3. leikhluta en Stjörnumenn með Dag í broddi fylkingar tóku völdin um miðjan leikhlutann og eru nú í bílstjórasætinu.

29. mín | 64-62 |
Dagur er rjúkandi heitur þessa stundina og kemur Stjörnunni yfir með þriggja stiga körfu. Gestirnir þurfa að vera duglegri að setja boltann inn á Hampton. Það gaf góða raun í fyrri hálfleik.

28. mín | 61-62 |
Dagur minnkar muninn í eitt stig með fallegu skoti. Hann er kominn með 11 stig. Heimamenn eru að nálgast. Hampton er aðeins með tvö stig í seinni hálfleik.

26. mín | 57-61 |
"Og einn" karfa frá Degi. Munurinn er kominn niður í fjögur stig.

24. mín | 52-57 |
Tómas skorar þrátt fyrir að vera laminn í andlitið. Níu stig í röð frá heimamönnum.

23. mín | 43-57 |
ÍR byrjar vel í seinni hálfleik. Rétt áðan setti Matthías niður sinn fjórða þrist. Öll hans stig hafa komið með skotum fyrir utan þriggja stiga línuna.

Seinni hálfleikur hafinn | 43-51 |
Frye setur niður eitt vítaskot, en Hampton svarar með körfu.

Fyrri hálfleik lokið | 42-49 |
ÍR-ingar skoruðu sjö síðustu stig hálfleiksins og leiða með sjö stigum þegar liðin ganga til búningsherbergja. Gestirnir hafa verið yfir nær allan hálfleikinn og verðskulda þessa sjö stiga forystu. Hampton er atkvæðahæstur í liði ÍR með 16 stig og átta fráköst, en Matthías kemur næstur með níu stig. Justin er með 12 stig hjá heimamönnum og Marvin tíu.

19. mín | 42-46 |
Jón Orri Kristjánsson fær óíþróttamannslega villu. Hampton setur vítaskotin niður og kemur Breiðhyltingum fjórum stigum yfir.

18. mín | 36-40 |
Hampton rífur niður sóknarfrákast og skorar. Heimamenn hafa samt varist honum mun betur en í fyrsta leikhluta. Fjögurra stiga munur. Bæði lið eru komin í bónus. Marvin og Justin eru stigahæstir hjá Stjörnunni með tíu stig hvor, en Hampton leiðir lið ÍR með 12 stig og sex fráköst. 

15. mín | 32-38 |
Hampton skorar sína fyrstu körfu í 2. leikhluta og Ragnar Örn bætir annarri við.

13. mín | 27-30 |
Fjögur stig frá Sveinbirni í röð. Justin er kominn með tíu stig og er stigahæstur heimamanna. Stjörnumenn er þegar búnir að tapa boltanum þrisvar í 2. leikhluta.

12. mín | 25-26 |
Shouse setur niður þrist og minnkar muninn í eitt stig. Sveinbjörn er enn stigalaus hjá ÍR.

Fyrsti leikhluti búinn | 20-23 |
Justin skorar fimm síðustu stig leikhlutans og sér til þess að munurinn er aðeins þrjú stig. Marvin er stigahæstur heimamanna með átta stig, en Hampton er með átta stig og fjögur fráköst hjá gestunum úr Breiðholtinu.

9. mín | 15-23 |
Hampton setur niður vítaskot og eykur muninn í átta stig. Hann er þegar búinn að sækja þrjár villur á leikmenn Stjörnunnar.

7. mín | 11-20 |
Matthías setur niður annan þrist. Breiðhyltingar skora að vild. Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, tekur leikhlé. Hans menn eru strax komnir níu stigum undir.

7. mín | 6-13 |
Gestirnir byrja mun betur. Þeir leita mikið að Hampton undir körfunni sem hefur gefið góða raun. Hann er kominn með fimm stig og fjögur fráköst.

5. mín | 6-10 |
Kristján setur niður þrist númer tvö hjá ÍR. Matthías setti hinn niður.

2. mín | 2-4 |
Vilhjálmur byrjaði á því setja niður tvö vítaskot, Marvin jafnaði áður en Hampton kom ÍR aftur yfir.

Leikur hafinn:
Marvin, Dagur, Tómas Þórður, Justin og Jarrid Frye byrja inn á hjá Stjörnunni, en Trey Hampton, Matthías, Sveinbjörn, Vilhjálmur og Kristján skipa byrjunarlið ÍR.

Fyrir leik:
Þegar fimm mínútur eru í leik eru ekki fleiri en 50 áhorfendur í húsinu. Leikmannakynningin fór fyrir lítið þar sem míkrafóninn (eintala) hér í Ásgarði virkar ekki.

Fyrir leik:
Skotnýting liðanna í vetur er áþekk. Stjarnan er með 49,5% skotnýtingu inni í teig, en 32,1% utan hans, á meðan ÍR hefur sett niður 48,4% skota sinna inni í teig og 31,0% utan þriggja stiga línunnar. Mótherjar ÍR eru hins vegar með betri skotnýtingu en mótherjar Stjörnunnar. Mótherjar ÍR skjóta 53,3% inni í teig og 35,4% utan hans á meðan mótherjar Stjörnunnar hitta úr 45,1% skota sinna inni í teig og 34,7% fyrir utan hann.

Fyrir leik:
Matthías, sem er tvítugur að aldri, er stigahæsti leikmaður ÍR í vetur með 22,6 stig að meðaltali í leik. Matthías, sem kom til Breiðholtsliðsins frá KR, skilar einnig 5,1 frákasti og 5,4 stoðsendingum að meðaltali í leik.

Fyrir leik:
Stjarnan og ÍR hafa innan sinna raða tvo af bestu ungu bakvörðum deildarinnar, Dag Kár Jónsson og Matthías Orra Sigurðarson. Dagur, sem er 19 ára gamalll, er með 19,1 stig, 3,1 frákast og 4,0 stoðsendingar að meðaltali í vetur en hann hefur þrátt fyrir ungan aldur verið fastamaður í liði Stjörnunnar í nokkur ár.

Fyrir leik:
Stjarnan bar sigurorð af Haukum í 32-liða úrslitum Powerade-bikarsins á meðan ÍR vann sigur á 1. deildarliði Breiðabliks.

Fyrir leik:
Góða kvöldið og velkomin til leiks. Hér verður fylgst með leik Stjörnunnar og ÍR í 16-liða úrslitum Powerade-bikars karla í körfubolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×