Breska meistaramótið í snóker, næst stærsta mót hvers árs á eftir heimsmeistaramótinu, stendur nú yfir í York á Englandi.
Ronnie O'Sullivan, fimmfaldur heimsmeistari í íþróttinni, komst auðveldlega í þriðju umferð mótsins með 6-3 sigri á Peter Lines, en hann hafði ýmislegt um mótið að segja í viðtali eftir sigurinn.
Þessi besti snókerspilari heims er afar ósáttur með aðbúnaðinn á mótinu og hvernig það er uppsett. Spilað er á fjórum borðum í einu, ekki tveimur, og hafa risar í sportinu fallið úr leik í fyrstu umferðunum.
„Ég býst við að við sjáum fleiri óvænt úrslit þar til það verður byrjað að spila á tveimur borðum. Þetta er eins og að biðja Roger Federer um að spila á velli þrettán á Wimbledon fyrir framan þrjá menn og hund,“ sagði O'Sullivan í viðtali við BBC.
„Ég sagði áður en mótið byrjaði að menn ættu eftir að sjá óvænt úrslit því það er spilað á fjórum borðum sem er ekki gott.“
„Aðstæður eru mjög erfiðar því maður spilar með bakið í áhorfendur. Manni líður því eins og maður sé ekki að spila fyrir neinn.“
Það er ekki bara uppsetningin sem fer illa í O'Sullivan heldur sjálf snókerborðin sem honum finst engan vegin boðleg á svona móti.
„Borðin eru hræðileg. Kúlan fer löturhægt í battann en skýst svo af honum mun hraðar. Þetta er næst stærsta mótið sem við spilum á og ég er í alvöru að hugsa um að nota ekki battana,“ sagði Ronnie O'Sullivan
