Körfubolti

Jón Axel að standa sig vel í Bandaríkjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson.
Jón Axel Guðmundsson. Vísir/Stefán
Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson er að spila frábærlega með körfuboltaliði Church Farm menntaskólans í Pennsylvaniu-ríki í Bandaríkjunum.

Jón Axel er sonur Guðmundar Bragasonar, leikjahæsta leikmanns íslenska landsliðsins frá upphafi, og er á sínu fyrsta ári en með liðinu spilar einnig yngri bróðir hans Ingvi Þór Guðmundsson.

Jón Axel var með 24 stig og 6 stoðsendingar í 52-40 sigri á Holy Ghost Prep skólanum. Hann hitti úr 7 af 10 skotum sínum utan af velli þar af setti hann niður þrjú þriggja stiga skot af löngu færi.

Jón Axel átti líka mikinn þátt í góðum varnarleik liðsins en andstæðingar þess hittu aðeins úr 14 af 53 skotum sínum í þessum leik.

„Jón Axel er mjög sérstakur leikmaður. Annar er líka flottur strákur, góður liðsfélagi og nýtir sitt mjög vel. Hann mun gera góða hluti með okkur," sagði Marc Turner, þjálfari Church Farm liðsins um íslenska bakvörðinn.

Ingvi Þór lék ekki með Church Farm í þessum leik enda kominn heim til að æfa með 18 ára landslinu en hann var með 9 stig í sigri liðsins á þriðjudaginn. Í þeim leik skoraði Jón Axel 33 stig.

Strákarnir eru þegar farnir að vekja áhuga 1. deildarháskóla og hver veit nema að það bætist enn frekar í flottan hóp íslenska körfuboltamanna í þeirri deild á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×