Handbolti

Róbert markahæstur þegar PSG vann eftir mikinn spennuleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Róbert Gunnarsson.
Róbert Gunnarsson. Vísir/AFP
Íslenski landsliðslínumaðurinn Róbert Gunnarsson nýtti öll skotin sín og var markahæstur hjá Paris Saint-Germain  þegar liðið vann eins marks útisigur á HBC Nantes, 27-26,  í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Róbert Gunnarsson skoraði sjö mörk úr sjö skotum í leiknum en tvö marka hans komu af vítapunktinum.

Róbert sýndi sterkar taugar á vítapunktinum þegar hann jafnaði metin í 26-26 tæpum tveimur mínútum fyrir leikslok en Jeffrey M'Tima skoraði síðan sigurmark liðsins 39 sekúndum fyrir leikslok.

Thierry Omeyer varði tvö síðustu skot Nantes í leiknum en aðeins sex skot samtals (af 28) fyrir utan lokamínúturnar.

Danska stórskyttan Mikkel Hansen kom næstur á eftir Róberti með sex mörk og Frakkinn Xavier Barachet var líka með sex mörk fyrir PSG í leiknum.

Paris Saint-Germain var einu marki yfir í hálfleik, 14-13, en Róber skoraði fimm af mörkum sínum í fyrri hálfleiknum.

Paris Saint-Germain er í 2. sæti deildarinnar með 22 stig í 14 leikjum, tveimur minnar en topplið Montpellier og tveimur meira en Arnór Atlason og félegar í Saint Raphaël sem eru í 3. sætinu með 20 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×