Touré er einn þeirra þriggja sem eru tilnefndir í ár, en hinir eru Vincent Enyeama, markvörður Lille og Nígeríu, og Gabon-maðurinn Pierre-Emerick Aubameyang sem leikur með Dortmund í Þýskalandi. Hvorugur þeirra hefur verið tilnefndur áður.
Verði Aubameyang fyrir valinu verður hann annar leikmaðurinn sem er ekki fæddur í Afríku til að hljóta nafnbótina. Hinn var malíski framherjinn Frédéric Kanouté árið 2007, en hann fæddist í Frakklandi líkt og Aubameyang.
Touré, sem er 31 árs, hefur hlotið nafnbótina Knattspyrnumaður ársins í Afríku þrjú ár í röð og getur orðið, eins og áður sagði, sá fyrsti til hljóta hana fjögur ár í röð.
Tveir aðrir leikmenn hafa hlotið nafnbótina þrjú ár í röð. Fyrstur til þess var Abedi Pelé frá Ghana, en hann fékk verðlaunin 1991, 1992 og 1993.
Kamerúninn Samuel Eto'o lék sama leik á árunum 2004-2006. Eto'o var einnig Knattspyrnumaður ársins í Afríku 2010, en enginn hefur hlotið þessa nafnbót jafn oft og hann, eða fjórum sinnum.
Verðlaunin fyrir Knattspyrnumann ársins í Afríku verða veitt 8. janúar næstkomandi.

