Handbolti

Þórir var ekki bara að vinna gullið heldur stóra vinninginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. Vísir/AFP
Þórir Hergeirsson, þjálfari nýkrýndra Evrópumeistara Noregs, sagði í viðtölum við fjölmiðla eftir leikinn að norska liðið hafi ekki aðeins verið að vinna Evrópumeistaragullið í gær.

Noregur vann 28-25 sigur á Spáni í úrslitaleiknum en árangur Þóris með liðið kom nokkuð á óvart enda að byggja upp lið ungra leikmanna eftir mikil forföll síðustu misseri.

Evrópumeistaratitillinn skilaði norsku stelpunum ekki aðeins gulli um hálsinn heldur með þessum sigri á EM tryggði liðið sér sæti á HM í Danmörku 2015 og farseðilinn á Ólympíuleikana í Ríó 2016.

Norska liðið sleppur við HM-umspil í júní þar sem þær spænsku mæta liði Slóvakíu. Þórir ætlar að skipuleggja æfingaferð til Brasilíu á sama tíma.

„Við vorum að fá stóra vinninginn," sagði Þórir Hergeirsson við adressa.no í gær.

„Þetta hjálpar okkur mikið. Vissulega hefði verið gott fyrir liðið að spila þessa umspilsleiki en við fáum aftur á móti allt annað tækifæri til að undirbúa okkur fyrir framhaldið," sagði Þórir en HM verður í Danmörku í desember á næsta ári.

„Nú fáum við tækifæri til að fara þangað sem við munum spila á Ólympíuleikunum. Við fáum þar góðar æfingabúðir og leiki á móti Brasilíu auk þess að við fáum að kynnast aðstæðum í Ólympíuþorpinu. Slíkt hefur reynst okkur vel áður fyrr," sagði Þórir við adressa.no.

Norska liðið er ungt og sýndi með frammistöðu sinni á EM að Þórir er búinn að setja saman nýtt lið sem er líklegt til afreka á næstu stórmótum.


Tengdar fréttir

Svíþjóð tók bronsið

Svíþjóð vann Svartfjallaland í leiknum um þriðja sætið á Evrópumótinu í handbolta sem fram fer í Ungverjalandi og Króatíu, 25-23.

Þórir: Ég átti aldrei von á þessu

Þórir Hergeirsson, þjálfari Evrópumeistara Noregs, segir ungu stelpurnar í norska kvennalandsliðinu hafa þroskast mikið á meðan Evrópumótinu stóð en Þórir gerði norska liðið að Evrópumeisturum í annað skiptið í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×