Handbolti

Reyni að hugsa jákvætt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lengi frá. Ólafur Bjarki Ragnarsson sleit krossband í leik.
Lengi frá. Ólafur Bjarki Ragnarsson sleit krossband í leik. Fréttablaðið/Getty
„Þetta var ekki skemmtileg lífsreynsla,“ segir Ólafur Bjarki Ragnarsson, landsliðsmaður í handbolta, við Fréttablaðið en hann sleit krossband í leik með Emsdetten í Íslendingaslag gegn Eisenach í þýsku 1. deildinni í handbolta um síðustu helgi.

„Ég var bara sækja á markið og það var ýtt örlítið á bakið á mér en ég fann ekkert fyrir því. Síðan stíg ég í löppina og heyri smellinn og finn hvernig hnéð gefur sig. Krossbandið fór og liðþófinn líka,“ segir Ólafur Bjarki sem drifinn var í aðgerð strax á þriðjudaginn en vanalega er beðið í nokkra daga með slíkt.

„Krossbandið var svolítið illa skemmt,“ segir hann. Þeir vildu prófa nýja aðgerð sem þetta sjúkrahús hérna er eitt með. Í henni er sinin ekki tekin. En krossbandið var svo illa farið að það var ekki hægt. Ég hef samt trú á að endurhæfingin verði bara þetta venjulega, svona 7-9 mánuðir.“

Verður heima og úti

Aðgerðin heppnaðist vel að sögn Ólafs og lá hann fyrir á hóteli sjúkrahússins þegar Fréttablaðið heyrði í honum hljóðið. „Það er bara verið að tríta mann. Ég fæ svo að fara heim á föstudag eða laugardag. Ég fæ meðhöndlun þangað til sem er gott,“ segir hann.

Árið 2014 hefur ekki reynst Ólafi gæfuríkt. Þvert á móti. Hann meiddist rétt fyrir EM í Danmörku og nú er þessu tímabili og fyrstu mánuðum þess næsta lokið. Þá er HM í Katar á næsta ári augljóslega í mikilli hættu hjá leikmanninum öfluga.

„Þetta er aðeins búið að leggjast á mann. Maður getur ekki forðast svona meiðsli. Nú tekur bara við langur pakki en maður reynir að hugsa jákvætt. Ég er með samning áfram út næsta tímabil þannig maður þarf ekkert að hugsa um það. Það er gott,“ segir Ólafur Bjarki sem stefnir á að stunda endurhæfingu sína úti og hér heima.

„Það er ekki það skemmtilegasta að horfa á strákana spila alla þessa leiki og geta ekki verið með. Þá er nú skemmtilegra að koma heim og vera með fjölskyldunni,“ segir Ólafur Bjarki Ragnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×