Handbolti

Kolding vill gera langtímasamning við Aron

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
KIF Kolding hefur unnið alla níu leiki sína eftir að Aron tók við þjálfun liðsins í vetur.
KIF Kolding hefur unnið alla níu leiki sína eftir að Aron tók við þjálfun liðsins í vetur. Vísir/Stefán
Aron Kristjánsson hefur gert frábæra hluti með danska liðið KIF Kolding síðan hann var ráðinn til að stýra liðinu tímabundið eftir að EM í Danmörku lauk. Eftir komu Arons hefur liðið unnið alla níu leiki sína í öllum keppnum og varð í gær danskur bikarmeistari eftir sigur á Bjerringbro/Silkeborg í úrslitaleik, 28-24.

„Það er auðvitað frábært að vinna titla og þetta var mikilvægt fyrir félagið,“ sagði Aron í samtali við Fréttablaðið í gær. Liðið vann engan titil í fyrra en það var fyrsta tímabil eftir að teflt var fram sameiginlegu liði Kolding og Kaupmannahafnar eftir gjaldþrot AG árið 2012. „Þar að auki varð Kolding síðast bikarmeistari árið 2007 og því hefur biðin verið nokkuð löng.“

Aron segir að sér hafi gengið vel að aðlagast danska boltanum á ný en hann var alls sjö ár í Danmörku, lengi sem þjálfari Skjern.

„Ég þekki leikmennina vel, sérstaklega í sterku liðunum. Við eigum líka marga reynslumikla menn í liðinu og var því auðveldara fyrir mig að koma mínum áherslum til skila – bæði hvað varðar leik liðsins og agamál,“ segir Aron.

Talsverð meiðsli hafa hrjáð leikmannahóp Kolding og árangur liðsins ekki síst athyglisverður í því ljósi. Þar að auki er þétt leikjadagskrá fram undan en úrslitakeppnin hefst strax á miðvikudaginn og þá á Kolding leik gegn Bjerringbro/Silkeborg. Þá eru mikilvægir leikir fram undan gegn Metalurg Skopje í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu síðar í mánuðinum.

Forráðamenn Kolding hafa rætt við Aron um að hann geri langtímasamning við félagið að tímabilinu loknum.

„Ég tók að mér að klára þennan vetur eftir að hafa ráðfært mig við HSÍ og fjölskyldu mína. En það væri mun stærri ákvörðun að halda áfram og gera samning sem gildir í nokkur ár,“ segir Aron.

Hann sér þó fyrir sér að hann gæti sinnt þjálfun Kolding samhliða störfum sínum hjá HSÍ. „Kolding líkar vel við þá hugmynd að ég haldi áfram að þjálfa íslenska landsliðið enda er hugmynd þeirra að ég yrði með stórt þjálfarateymi með mér hér. Þetta er allt óráðið en ég er ánægður hjá HSÍ og hef áhuga á að starfa þar áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×