Handbolti

Vignir kvartar ekki yfir því að fara aftur til Danmerkur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Vignir lék í þrjú ár með Skjern í Danmörku á sínum tíma.
Vignir lék í þrjú ár með Skjern í Danmörku á sínum tíma. Vísir/Daníel
„Ég er ekki búinn að skrifa undir neitt en vonandi geng ég frá mínum málum á næstunni. Viðræðurnar eru langt komnar. Ég get staðfest það,“ segir landsliðsmaðurinn Vignir Svavarsson en frá því var greint í dönskum fjölmiðlum í gær að hann væri á leið til Midtjylland.

Það lið er búið að rúlla dönsku B-deildinni upp í vetur og spilar því í deild þeirra bestu næsta vetur. Liðið stóð sig einnig vel í bikarkeppninni og fór þar alla leið í undanúrslit en tapaði fyrir liði Arons Kristjánssonar, Kolding.

Samningur Vignis við þýska félagið Minden er að renna út. Árin tvö þar hafa ekki gengið sem skyldi hjá línumanninum sterka. Hann hefur verið talsvert meiddur og lítið fengið að spila þess á milli.

„Þetta hefur verið undarlegur tími hjá Minden með öll meiðslin og spiltímann. Þetta hefur ekki alveg verið eins og ég ætlaði mér en við fjölskyldan höfum engu að síður haft það gott hérna,“ segir Vignir en hann ræddi ekkert við félagið um neitt framhald á sínum samningi þar.

Vignir hóf atvinnumannsferil sinn hjá Skjern í Danmörku þar sem hann gerði það gott. Hann er því alls ekki mótfallinn því að fara þangað aftur.

„Ég átti þrjú frábær ár í Skjern og leið rosalega vel þar. Ef við förum til Danmerkur þá er það svo sannarlega ekkert til að kvarta yfir. Við værum alveg til í það.“

Vigni líst vel á það sem hann hefur heyrt frá forráðamönnum félagsins.

„Þeir eru ekkert með of háleit markmið en þau eru raunhæf. Þeir hafa sett upp gott plan um hvernig þeir vilja byggja þetta upp. Mér leist vel á það sem þeir hafa fram að færa og þetta er spennandi kostur. Vonandi klárast þetta sem fyrst því ég þarf að fara að ganga frá mínum málum hér í Þýskalandi ef ég er að flytja úr landinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×