Skoðun

Takmarkaður efnahagslegur ávinningur

Árni Páll Árnason skrifar
Um daginn rakti ég þann augljósa galla á skuldaleiðréttingartillögum ríkisstjórnarinnar að þær flytja fé til fólks sem hagnaðist jafnvel á þróun síðustu ára, en bæta ekki forsendubrestinn hjá þeim sem urðu fyrir honum. En það eru ekki einu ókostirnir við útfærslu ríkisstjórnarinnar.

Seðlabankinn hefur lagt mat á afleiðingar aðgerðanna. Niðurstaða þeirrar greiningar er sláandi: Verðbólga verður meiri, vextir hærri, fjárfesting minni og gengi veikara en ella.

Aðgerðin er ekki miðuð við þá sem skulda mikið í húsnæði sínu og eiga erfitt með að láta enda ná saman. Þess vegna mun hún leiða til aukinnar eftirspurnar og skuldsetningar, þar sem þeir sem ekki skulda mikið og bera lítinn húsnæðiskostnað munu að öllum líkindum nýta aukið svigrúm til að kaupa meira eða skuldsetja sig á nýjan leik. Afleiðing þess verður þrýstingur á gengið, vegna þess að aukin spurn verður eftir innfluttum vörum – ísskápum, bílum og því um líku. Aukinn kaupmáttur fólks sem ber lítinn húsnæðiskostnað mun leita út í verðlag og auka verðbólgu.

Þessu mun Seðlabankinn svara með því að hækka vexti, ef takast á að hemja verðbólguna. Í spá Seðlabankans er gert ráð fyrir að vextir verði heilu prósentustigi hærri en að óbreyttu. Þetta eru vextirnir sem fólk borgar af yfirdráttarlánunum sínum og bílalánunum. Þetta eru vextirnir sem fyrirtækin eru að borga af lánum sem þau hafa tekið til að kaupa búnað og tæki. Þess vegna gerir Seðlabankinn ráð fyrir að fjárfesting verði minni en ella og þar með hægi á fjölgun starfa. Það kemur verst niður á langtímaatvinnulausum og ungu fólki sem er að fara á vinnumarkaðinn. Fjármagnseigendur munu aftur á móti njóta hærri vaxta.

Við munum því öll bera kostnað af þessum aðgerðum hvort sem við skuldum í húsnæði eða ekki. Þeir sem eru á lægstu laununum og annað hvort leigja eða skulda lítið í húsnæði munu njóta í litlu eða engu, en bera til fulls kostnað af aukinni verðbólgu og hærri vöxtum.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×