Skoðun

Þurfa öll börn að byrja í skóla á haustin?

Pétur Hrafn Sigurðsson skrifar
Í Kópavogi eru um 300 börn á biðlista eftir leikskólaplássi og hafa foreldrar lent í vandræðum vegna þessa. Foreldrar vilja að börn komist í leikskóla þegar fæðingarorlofi lýkur. Bygging nýrra leikskóla til að mæta þörfinni er dýr framkvæmd. Byggja þarf þrjá leikskóla til viðbótar til að anna þörfinni. Kostnaður gæti orðið einn milljarður króna.

Samfylkingin í Kópavogi vill leita leiða til að leysa þetta vandamál. Við viljum skoða breytt fyrirkomulag á upphafi skólagöngu barna í Kópavogi, þannig að grunnskólinn taki tvisvar á ári inn börn úr leikskólanum.

Fyrirkomulagið verði þannig að um áramót á sjötta aldursári hefji börn fædd fyrri hluta árs skólagöngu í grunnskóla og í ágúst það sama ár þau sem fædd eru síðari hluta ársins. Með því að taka helming hvers árgangs, um 250 börn, inn í grunnskóla sex mánuðum fyrr en nú er, skapast rými fyrir jafn mörg börn í leikskólum, sex mánuðum fyrr en nú er. Þannig styttist tíminn sem foreldrar þurfa að brúa frá lokum fæðingarorlofs að skólagöngu.

Töluverður munur á þroska

Annar kostur við það fyrirkomulag er að oft er töluverður munur á þroska barna sem fædd eru t.d. í janúar og síðan í desember. Út frá þeim forsendum gæti verið gott fyrir börnin að innritun í skólana fari fram tvisvar á ári.

Við getum tekið dæmi af Jóni og Gunnu sem eignast barn í febrúar 2014 og taka níu mánuði í fæðingarorlof. Því lýkur í nóvember. Þau þurfa leikskólapláss fyrir barnið, en þar sem elstu börnin í leikskólanum byrja í grunnskóla að hausti verða Jón og Gunna að leita annarra úrræða frá nóvember og fram í júní/júlí því það losna engin pláss fyrr en um haustið þegar elsti árgangurinn fer úr leikskóla í grunnskóla.

Ef börn eru tekin inn í grunnskólann tvisvar á ári, í janúar og ágúst, fara elstu hópar barna úr leikskóla í grunnskóla tvisvar á ári og biðtími Jóns og Gunnu eftir leikskólaplássi styttist. Þetta er gott fyrir börnin, foreldrana og samfélagið. Þetta er hugmynd sem við hvetjum Kópavogsbúa til að kynna sér vel og útfæra með okkur. Þannig gerum við Kópavog betri.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×