Handbolti

Utan vallar: Aron vinnur leikinn ekki einn

Guðjón Guðmundsson skrifar
Guðjón Guðmundsson.
Guðjón Guðmundsson. Vísir/Vilhelm
Íslenska landsliðið í handbolta leikur einn sinn mikilvægasta leik frá því í júní 2008 þegar liðið mætir Bosníumönnum á sunnudaginn í Laugardalshöll. Í húfi er farseðillinn á HM í Katar á næsta ári en það væri hreinlega óásættanlegt fyrir Ísland að tryggja sér ekki sæti í lokakeppninni.

Ísland tapaði með eins marks mun í fyrri leiknum í Bosníu þar sem strákarnir okkar köstuðu frá sér sigrinum á lokakafla leiksins. Í stöðunni 27-23 gerðu íslensku strákarnir sig seka um mýgrút mistaka þar sem liðið tapaði boltanum trekk í trekk. Bosníumenn refsuðu grimmt og unnu lokakaflann, 10-5. Sömu mistök verða ekki leyfð í Höllinni.

Hvað gerðist á þessum „slæma kafla“? Jú, Bosnía breytti um varnarleik og spilaði með framliggjandi „indíána“ eða það sem flestir þekkja sem 5+1-varnarleik. Við það datt allur botn úr sóknarleik Íslands og Bosníumenn keyrðu í bakið á okkar mönnum og refsuðu sem fyrr segir. Liðið verður að undirbúa sig betur fyrir seinni leikinn og geta svarað þeim óvæntu stöðum sem koma upp.

Í heildina var leikur Íslands í fyrri leiknum ágætur. Sóknarleikurinn var lengst af góður en varnarleikurinn kaflaskiptur. Vörnin hélt lengi vel en ekki var laust við að þreyta hefði sagt til sín síðasta korterið.

Stóra vandamálið var þó markvarslan sem var undir meðallagi. Í leikjum í undankeppnum og á stórmótum er allt undir 35 prósent markvarsla hjá liði sem telur sig vera í heimsklassa óboðleg.

Beiti Bosníumenn sömu leikaðferð í Höllinni er ljóst að Ísland þarf að spila agaðan leik með innleysingum. Lykilatriðið er að boltanum verði ekki troðið inn á línu í vonlausri stöðu þar sem hann tapast og við fáum mörk á okkur í bakið. Sú var raunin í Sarajevo.

Miklar vonir eru bundnar við að Aron Pálmarsson geti tekið einhvern þátt í seinni leiknum. Það yrði svo sannarlega kostur. Hafa ber þó í huga að Aron Pálmarsson er hluti af liðinu. Hann styrkir liðið og það styrkir hann. Handbolti er leikur liðsheildar – ekki einstaklinga.

Eini einstaklingurinn sem getur hjálpað strákunum okkar á sunnudaginn ert þú, áhorfandi góður. Ísland þarf að vinna með tveimur mörkum til að komast á HM 2015 og þú getur leikið lykilhlutverk í því ævintýri. Er það eitthvað sem þú ætlar virkilega að missa af?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×