Körfubolti

Ísland aldrei tapað í Koparkassanum í London

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson var frábær í fyrri leiknum.
Martin Hermannsson var frábær í fyrri leiknum. vísir/Vilhelm
Ísland er aðeins 40 mínútum frá því að komast inn á Evrópumótið í körfubolta. Sigur á Bretum í Koparkassanum í London á miðvikudagskvöldið gæti skrifað annað bindi í sögu íslenska körfuboltans.

Eftir þrettán stiga sigur á Bretum í Höllinni nægir íslensku strákunum sigur á breska liðinu til þess að tryggja sér annað sætið í riðlinum sem gefur nánast örugglega sæti í úrslitakeppni EM.

Koparkassinn var byggður fyrir Ólympíuleikana í London 2012 og þar fór fram riðlakeppni handboltans á sumarleikunum fyrir tveimur árum.

Íslenska handboltalandsliðið er eini fulltrúi Íslands í höllinni fyrir þennan leik annað kvöld og það er ekki mikið hægt að kvarta yfir genginu til þessa.

Íslenska handboltalandsliðið vann alla fimm leikina í Koparkassanum í riðlakeppni ÓL í London, þar á meðal sigur á bæði Frökkum og Svíum sem enduðu síðan á því að spila um gullið á leikunum. Íslenska liðið vann Argentínu og Túnis í fyrstu tveimur leikjum sínum og síðasti leikur íslensks landsliðs í húsinu var síðan sautján marka sigur á breska landsliðinu, 41–24.

Tveimur dögum eftir sigurinn á Bretum var komið að átta liða úrslitunum en þá var ekki lengur spilað í Koparkassanum heldur í Körfuboltahöllinni sem er stærra hús. Íslenska liðið tapaði fyrir Ungverjum í framlengdum leik í fyrsta leik sínum í Körfuboltahöllinni.

Í raun hefur ekki gengið alltof vel hjá karlalandsliðunum okkar í London fyrir utan þessa leiki í Koparkassanum og því til stuðnings má nefna tap fótboltalandsliðsins fyrir Trínidad og Tóbagó á Loftus Road í febrúar 2006 eða tvö töp í hinum leikjum fótboltalandsliðsins í höfuðborg Englands.

En þessi leikur fer sem betur fer fram í Koparkassanum og þar Ísland á fimm leikja sigurgöngu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×