Handbolti

Kom eins og þruma úr heiðskíru lofti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur stýrir Valsliðinu ekki fyrri hluta Íslandsmótsins.
Ólafur stýrir Valsliðinu ekki fyrri hluta Íslandsmótsins. Fréttablaðið/Stefán
„Maður er ekki alveg búinn að melta þetta enn þá. Hann tilkynnti okkur þetta eftir æfingu í hádeginu í dag (gær). Þetta var mikið sjokk fyrir alla,“ segir Hlynur Morthens, markvörður Vals í Olís-deild karla, en í gær fór Ólafur Stefánsson, þjálfari liðsins, í frí fram að áramótum til að sinna nýrri vinnu sem hann er kominn í.

„Þetta er einhver mesta þruma úr heiðskíru lofti sem ég hef lent í. Maður var alveg orðlaus,“ segir Hlynur, sem var enn að melta tíðindin er hann sat í ferjunni Baldri á leið til Vestmannaeyja seinni partinn í gær þegar Fréttablaðið ræddi við hann.

„Nýstofnað fyrirtæki Ólafs kallar á mikla viðveru, meiri en svo að hægt sé sinna bæði þjálfun og uppbyggingu fyrirtækisins af þeim metnaði og fagmennsku sem krafist er á báðum stöðum,“ sagði í fréttatilkynningu Valsmanna um ákvörðunina í gær, en við stjórnartaumunum taka þeir Jón Kristjánsson og Óskar Bjarni Óskarsson sem gerði Valsmenn að Íslandsmeisturum árið 2007.

„Óli útskýrði þetta vel og stjórnin tilkynnti nýja þjálfara um leið. Menn fá núna helgina til að melta þetta, en þetta var mikið áfall,“ segir Hlynur, en hvernig tóku leikmenn liðsins fréttunum?

„Það var misjafnt hljóðið í mönnum. Sumir voru mjög reiðir og aðrir í miklu áfalli. Það er náttúrulega alveg fáránlega stutt í fyrsta leik þannig að tímasetningin er ekki góð. En menn þurfa bara að þjappa sér saman. Við tökum bara góðan fund eftir helgi leikmennirnir og förum vel yfir þetta.“

Þegar Ólafur Stefánsson tók við Valsliðinu höfðu margir leikmenn áhuga á að spila undir handleiðslu þessa besta handboltamanns Íslands frá upphafi. Frændurnir og stórskytturnar frá Akureyri, Guðmundur Hólmar Helgason og Geir Guðmundsson, fluttu suður og gengu í raðir Vals svo dæmi má nefna.

„Það er nefnilega málið. Ég fann sérstaklega til með þeim leikmönnum. En hann mun vera í kringum okkur og kíkja við,“ segir Hlynur, en telur markvörðurinn að Ólafur snúi aftur um áramótin eins og til stendur?

„Ég vona það. Það er bara vonandi að hann komi þessu fyrirtæki á ról. Hann vill gera það 100 prósent og það tekur bara mikinn tíma. Ég vona svo sannarlega að hann komi aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×