Körfubolti

Helena: Þetta eru frábærar fréttir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir í leik með landsliðinu síðasta sumar.
Helena Sverrisdóttir í leik með landsliðinu síðasta sumar. Vísir/Daníel
Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta mun standa í stórræðum næsta vetur þegar liðið tekur þátt í undankeppni EM á ný eftir sex ára hlé. Stjórn FIBA Europe ákvað á fundi sínum í lok vikunnar að frá og með næsta hausti verði undankeppni EM kvenna spiluð innan keppnistímabilsins og í svokölluðum „landsliðsgluggum“ og fram undan eru því sögulegir leikir hjá kvennaliðinu.

Íslenska kvennalandsliðið hefur aldrei spilað keppnisleik inni á miðju tímabili því leikir liðsins á NM, EM eða Smáþjóðaleikjum hafa verið fyrir eða eftir tímabilið.

„Við stelpurnar erum búnar að bíða eftir að fá þetta tækifæri síðan síðast og því eru þetta frábærar fréttir,“ segir Helena Sverrisdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, sem spilar sem atvinnumaður í Póllandi í dag. En hvað finnst henni um þessa breytingu?

„Persónulega finnst mér þetta frábær breyting. Þetta þýðir að við ,sem erum að spila sem atvinnumenn, fáum smá hlé frá okkar liðum og fáum að koma heim og spila með landsliðinu. Þetta þýðir einnig að við getum tekið meiri hvíld fyrir líkamann á sumrin. En þetta hefur líka kannski þau áhrif að við munum líklegast ekki getað teflt fram okkar sterkasta liði, þar sem ég sé ekki fyrir mér að NCAA eða skólarnir úti geti leyft leikmönnum að taka frí frá bæði skóla og leikjum,“ segir Helena.

Undankeppni EM kvenna 2017 hefst í nóvember á næsta ári en tvö landsleikjahlé með tveimur leikjum hvort verða á næstu leiktíð, það fyrra 16. til 26. nóvember 2015 og það síðara 15. til 25. febrúar 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×