Smáríkið sem varð stórveldi sem varð smáríki Illugi Jökulsson skrifar 28. desember 2014 10:00 Jogaíla Laust fyrir miðjan desember fór ég í nokkurra daga heimsókn til Vilníus, höfuðborgar Litháens, að horfa á leikhús og halda upp á afmæli. Litháar eru af einhverjum ástæðum sem enginn kann að skýra í fremstu röð í heiminum í leikhúslífi, við Íslendingar höfum fengið smjörþefinn af því með sýningum litháíska leikstjórans Rimas Tuminas sem setti upp einar fimm sýningar í Þjóðleikhúsinu kringum aldamótin síðustu. Á öðrum sviðum er Litháen svo sem ekki í fremstu röð, enda landið lítið og fámennt – þar búa rétt tæplega þrjár milljónir manna sem þýðir að Litháar eru í 35. sæti yfir þjóðir Evrópu. Að stærð er Litháen ögn ofar á lista en þó bara í 27. sæti, landið er ekki tveir þriðju af stærð Íslands, svo dæmi sé tekið. Þar sem ég sprangaði um götur Vilníusar fór ekki hjá því að ég fyndi hve Litháar hafa miklar áhyggjur af smæð landsins, nú ríkir þar nefnilega mikill ótti við Rússa, landsmenn telja að í grimmri örvæntingu sinni yfir fallandi veraldargengi gæti Vladimír Pútin átt það til að reyna að gleðja landa sína með því að slá um sig í vestri, og víst er að hinn fámennski litháíski her yrði honum auðveld bráð ef Litháar hefðu ekki stigið það mikilvæga skref að ganga í NATO árið 2004. Og Litháar mega ekki til þess hugsa að lenda aftur á rússnesku yfirráðasvæði, þeir tóku sér sjálfstæði árið 1991 eftir að hafa verið undir rússneskum járnhæl öldum saman og bæði keisarar og seinna kommúnistar gerðu sitt ýtrasta til að bæla niður sjálf þjóðerni Litháa og gera úr þeim Rússa. Þegar ég var þarna á ferð höfðu Litháar kallað út sinn litla her til að sýna Pútín að þeir myndu berjast fram í rauðan dauðann ef hann sendi skriðdreka sína af stað. Sem betur fer er líklega lítil raunveruleg hætta á því og Litháar geta því aftur farið að helga sig hinu helsta áhyggjuefni sínu, sem er hvernig stendur á því að nágrannar þeirra bæði Lettar og Eistar hafa unnið Eurovision en þeir ekki. Nú skildist mér að þeir ætluðu að gera úrslitatilraun til að vinna!Tvískinnungur í sögunni Auðvitað á maður ekki að fella dóma um fólk og hvað þá þjóðir eftir aðeins nokkurra daga kynni. En þessa daga í desember sýndust mér Litháar allt í senn prúðir, kurteisir og viðkunnanlegir; þeir voru ekki uppáþrengjandi, því hvernig mætti örlítið þjóð sem lengi hefur verið verið pínd af stórveldi vera uppáþrengjandi og oflætisfull? Hún lærir að lifa af og fara sínar eigin leiðir ekki með gassagangi. En Litháar leyna raunar á sér. Þessi litla þjóð í þessu litla landi (þótt Litháar sjálfir séu raunar áberandi hávaxið fólk í holdinu) hún réði einu sinni yfir stærsta ríki Evrópu og stýrði þá öðrum þjóðum, þar á meðal stórum hópum Rússa, af sama þrótti og Rússar stýrðu þeim seinna – en vissulega þó ekki af þeirri sömu hörku og Rússar sýndu þeim. Það ríkir sem sé afar undarlegur tvískinnungur í litháískri sögu – Litháen er smáríkið sem varð stórveldi sem varð aftur smáríki. Og fyrir þessum flækjum þóttist ég finna þar sem ég gekk um götur í smáborginni Vilníus sem ef til vill kannski hefði hugsanlega og mögulega getað orðið ein af stórborgum heimsins.JadwígaÞjóðverjar stunda trúboð Litháar eru ein hinna svokölluðu baltnesku þjóða sem voru komnar til sögu í Eystrasaltslöndunum kringum Krists burð; tungumálið er þó talið eiga sér töluvert eldri rót. Baltnesku málin eru skyld hinum slavnesku en aðskilnaður átti sér fram aftur í grárri forneskju og fátt þykir nú líkt með þeim. Meðan Germanir og síðan Slavar og loks víkingar fóru að mestu framhjá Eystrasaltlöndunum í sínu veraldarvafstri bjuggu Litháar nokkuð einangraðir í smáhópum í sínum þéttu skógum en um árið 1000 fer að spyrjast til ríkjamyndunar á svæðinu. Það ríki var ekki burðugt fyrstu áratugina og aldirnar; Litháar voru lengi skattskyldir fyrst Dönum en síðan Kænugarðsmönnum, þeim sem við myndum nú kalla Úkraínumenn. Í Kíev eða Kænugarði var risið úkraínskt stórveldi og eitt mesta ríki Evrópu á 11tu öld, þá var hin rússneska Moskva ekki annað en fáfengilegt smáfurstadæmi. Og Úkraínumenn höfðu um stund ráð Litháa í hendi sér. Laust fyrir 1200 voru Litháar hins vegar farnir að eflast verulega og í skógunum var komið til sögunnar feykisterkt riddaralið sem ekki var lamb að leika sér við, jafnvel ekki fyrir hina öflugustu nágranna. Eftir að Mongólar komu svo að austan og knésettu Kænugarðsmenn um 1240 fóru Litháar að teygja áhrif sín í austur og suður inn á úkraínsku slétturnar. Í vestri höfðu þá dúkkað upp nýir og hættulegir óvinir, þýskar riddarareglur herskárra bráðdrepandi munka sem höfðu á endanum lagt undir sig Eistland og Lettland og vildu nú Litháen líka, og tókust þungbrynjaðir riddarar á stórum stríðsfákum á í skógunum næstu áratugina. Þjóðverjar töldu sig stunda trúboð ekki síður en landvinninga, það merkilega við Litháa var nefnilega að þeir voru enn heiðnir, sem kallað var, því þeir höfðu ekki undirgengist kristindóminn einir þjóða í Evrópu fyrir utan samískar þjóðir lengst í norðri. Í birkiskógunum þéttu voru gamlir frjósemisguðir enn við hestaheilsu og kunnastur þeirra þrumuguðinn Perknas sem gerði vilja Dievas æðstaguðs. Með þá félaga sér til aðstoðar þurftu Litháar ekki á Kristi að halda og voru þó ekki verra fólk en hverjir aðrir. Alveg óvænt fór nú í hönd stórveldistími fyrir Litháa þótt fáir væru. Árin 1316-1341 ríkti réði þar ríkjum Gediminas nokkur sem kallaðist stórhertogi og stofnaði höfuðborgina Vilníus, Algirdas sonur hans lagði undir sig Kænugarð 1362 og virtist á góðri leið með að hirða hina vaxandi Moskvuborg líka þótt hann léti að endingu staðar numið skammt frá borginni eftir að hafa sest um hana tvisvar. Á hans dögum var Litháen líklega orðið víðlendasta ríki Evrópu þótt Litháar sjálfir væru ekki nema brot þeirra slavnesku þegna sem þeir réðu í austri og suðri. Jogaíla sonur Algirdasar treysti svo Litháa enn í sessi þegar hann steig það óvænta skref 1386 að verða konungur Póllands.Það var svolítill Indíánabragur á litháísku riddurunum og dátunum með fjaðraskrautið sitt.Varla þverfótað fyrir kirkjum Pólland hafði verið að eflast síðustu aldirnar en nú vildi svo til að konungslaust var í landinu. Landsmenn höfðu á stundum verið í nánu sambandi við Ungverja og því völdu pólskir aðalsmenn Jadwígu hina tíu ára dóttur Ungverjakóngs í hásætið og þegar hún var tólf ára var henni valinn að eiginmanni Jogaíla stórhertogi Litháens. Er þau gengu í hjónaband var hann 26 ára en hún 12 ára. Ætlun Pólverja var fyrst og fremst að fá sterka bandamenn gegn þýsku riddaramunkunum sem herjað höfðu á lendur þeirra ekki síður en Litháens, þótt Pólverjar hefðu tekið kristni þegar um árið 1000. Jogaíla þurfti að kosta því til að taka kristni ásamt sinni þjóð, svo hann fengi sest í hásætið við hlið hinnar barnungu Jadwígu. Að sönnu voru Litháar sagðir blóta í laumi lengi eftir að þeir voru opinberlega orðnir kristnir, áfram var heitið á Perknas til mannrauna í áratugi eða jafnvel aldir, en eftir að kristindómurinn festi loks sæmilegar rætur gerðust Litháar hins vegar jafn kaþólskir og þeir höfðu verið heiðnir áður, að minnsta kosti opinberlega. Þegar ég gekk um Vilníus um daginn var varla þverfótað fyrir kirkjum og það voru heldur engar smákirkjur, heldur stórar höfuðkirkjur hver á fætur annarri, oft ekki nema svona 50 metrar á milli þeirra. Kristindómur Litháa kom ekki í veg fyrir að þeir héldu áfram að elda grátt silfur við þýsku riddaramunkana, tevtónsku riddarana, sem svo kölluðust núorðið, en enduðu loks með því að nefnast Prússar. Frá og með valdatíð Jogaíla og Jadwígu voru Pólland og Litháen nátengd. Frá miðri 15. öld var litið á þau sem bandalagsríki tveggja þjóða með sameiginlegan þjóðhöfðingja. Litháar lögðu alltaf mikla áherslu á að þeir væru í alla staði jafnokar Pólverja í ríkinu, enda voru það þeir sem höfðu náð mestöllum lendum hins sameiginlega ríkis í austri og suðri – einu sinni náðu þeir allt til Svartahafs. En með tímanum fór litháíski aðallinn reyndar að taka upp pólska siði og pólska tungu í vaxandi mæli, ástæðan var einfaldlega sú að Pólverjar voru mun fjölmennari en Litháar og hlutu því að verða ráðandi er fram liðu stundir. En lengst af gættu Litháar sjálfstæðis síns og litháísk alþýða blandaði aldrei um of geði við hina pólsku. Árið 1569 voru ríkin formlega sameinuð þótt enn væri kveðið á um að þjóðirnar tvær væru sjálfstæðar, þetta skref töldu Litháar sig verða að stíga til að sporna við uppgangi hættulegs granna í austri.Framtíðin virtist björt Það voru Rússar. Það hafði tekið Rússa margar aldir að ná sér eftir hervirki Mongóla en nú var mannfjöldinn á sléttunum eystra farinn að segja til sín. Moskva sankaði að sér æ fleiri rússneskum hertogadæmum og gerði að sínum. Árið 1547 tók stórhertoginn Ívan grimmi sér keisaranafn og þótti skima skörpum augum á sérhverja landspildu utan landamerkja sinna, rétt eins og Pútín gerir núna. Athyglisvert er að í Póllandi-Litháen voru um tíma uppi hugmyndir um að koma á nánu bandalagi við Rússa og Ívani grimma var til dæmis gert ljóst að því yrði vel tekið ef hann sæktist eftir krúnunni í sambandsríkinu í vestri. En Ívan hafnaði því, þar sem hann var of stoltur til að biðja um konungstign, hann vildi láta ganga bónarveg að sér. Og svo mun honum ekki hafa litist á þá bliku að skilyrði fyrir sameininu Rússlands og Póllands-Litháens væri að það síðarnefnda fengi að halda trúfrelsi sínu. Meira andans frelsi, þar á meðal trúfrelsi, þótti nefnilega einkenna Pólland-Litháen en flest önnur Evrópulönd um þær mundir, og frelsi hefur sjaldan verið sérstakt áhugamál Kremlarherra, hvaða hugmyndafræði sem þeir þykjast annars aðhyllast. Ekki kom að sinni til stórkostlegs uppgjörs milli Rússa annars vegar og Pólverja og Litháa hins vegar. Í byrjun 17. aldar var tvíríkið upp á sitt víðáttumesta, sannkallað stórveldi, og skyggði að stærð og fólksfjölda á öll stórveldin í Vestur-Evrópu. Framtíðin virtist björt fyrir hina hávöxnu stoltaralegu Litháa. Og það sem hefði getað orðið, það er sú flókna hugsun sem maður rekst á hvarvetna á götum Vilníus. Hvernig á því stóð að þetta gríðarmikla ríki, er virtist svo öflugt, skyldi svo hrynja til grunna á fáum áratugum, og nú stendur eftir smáþjóð númer 35 í Evrópu, sú saga verður að bíða betri tíma – og nýs árs. Gleðilegs nýs árs! Eurovision Flækjusaga Menning Mest lesið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Menning Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Lífið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Lífið Króli trúlofaður Lífið Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Áskorun Fleiri fréttir Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Sjá meira
Laust fyrir miðjan desember fór ég í nokkurra daga heimsókn til Vilníus, höfuðborgar Litháens, að horfa á leikhús og halda upp á afmæli. Litháar eru af einhverjum ástæðum sem enginn kann að skýra í fremstu röð í heiminum í leikhúslífi, við Íslendingar höfum fengið smjörþefinn af því með sýningum litháíska leikstjórans Rimas Tuminas sem setti upp einar fimm sýningar í Þjóðleikhúsinu kringum aldamótin síðustu. Á öðrum sviðum er Litháen svo sem ekki í fremstu röð, enda landið lítið og fámennt – þar búa rétt tæplega þrjár milljónir manna sem þýðir að Litháar eru í 35. sæti yfir þjóðir Evrópu. Að stærð er Litháen ögn ofar á lista en þó bara í 27. sæti, landið er ekki tveir þriðju af stærð Íslands, svo dæmi sé tekið. Þar sem ég sprangaði um götur Vilníusar fór ekki hjá því að ég fyndi hve Litháar hafa miklar áhyggjur af smæð landsins, nú ríkir þar nefnilega mikill ótti við Rússa, landsmenn telja að í grimmri örvæntingu sinni yfir fallandi veraldargengi gæti Vladimír Pútin átt það til að reyna að gleðja landa sína með því að slá um sig í vestri, og víst er að hinn fámennski litháíski her yrði honum auðveld bráð ef Litháar hefðu ekki stigið það mikilvæga skref að ganga í NATO árið 2004. Og Litháar mega ekki til þess hugsa að lenda aftur á rússnesku yfirráðasvæði, þeir tóku sér sjálfstæði árið 1991 eftir að hafa verið undir rússneskum járnhæl öldum saman og bæði keisarar og seinna kommúnistar gerðu sitt ýtrasta til að bæla niður sjálf þjóðerni Litháa og gera úr þeim Rússa. Þegar ég var þarna á ferð höfðu Litháar kallað út sinn litla her til að sýna Pútín að þeir myndu berjast fram í rauðan dauðann ef hann sendi skriðdreka sína af stað. Sem betur fer er líklega lítil raunveruleg hætta á því og Litháar geta því aftur farið að helga sig hinu helsta áhyggjuefni sínu, sem er hvernig stendur á því að nágrannar þeirra bæði Lettar og Eistar hafa unnið Eurovision en þeir ekki. Nú skildist mér að þeir ætluðu að gera úrslitatilraun til að vinna!Tvískinnungur í sögunni Auðvitað á maður ekki að fella dóma um fólk og hvað þá þjóðir eftir aðeins nokkurra daga kynni. En þessa daga í desember sýndust mér Litháar allt í senn prúðir, kurteisir og viðkunnanlegir; þeir voru ekki uppáþrengjandi, því hvernig mætti örlítið þjóð sem lengi hefur verið verið pínd af stórveldi vera uppáþrengjandi og oflætisfull? Hún lærir að lifa af og fara sínar eigin leiðir ekki með gassagangi. En Litháar leyna raunar á sér. Þessi litla þjóð í þessu litla landi (þótt Litháar sjálfir séu raunar áberandi hávaxið fólk í holdinu) hún réði einu sinni yfir stærsta ríki Evrópu og stýrði þá öðrum þjóðum, þar á meðal stórum hópum Rússa, af sama þrótti og Rússar stýrðu þeim seinna – en vissulega þó ekki af þeirri sömu hörku og Rússar sýndu þeim. Það ríkir sem sé afar undarlegur tvískinnungur í litháískri sögu – Litháen er smáríkið sem varð stórveldi sem varð aftur smáríki. Og fyrir þessum flækjum þóttist ég finna þar sem ég gekk um götur í smáborginni Vilníus sem ef til vill kannski hefði hugsanlega og mögulega getað orðið ein af stórborgum heimsins.JadwígaÞjóðverjar stunda trúboð Litháar eru ein hinna svokölluðu baltnesku þjóða sem voru komnar til sögu í Eystrasaltslöndunum kringum Krists burð; tungumálið er þó talið eiga sér töluvert eldri rót. Baltnesku málin eru skyld hinum slavnesku en aðskilnaður átti sér fram aftur í grárri forneskju og fátt þykir nú líkt með þeim. Meðan Germanir og síðan Slavar og loks víkingar fóru að mestu framhjá Eystrasaltlöndunum í sínu veraldarvafstri bjuggu Litháar nokkuð einangraðir í smáhópum í sínum þéttu skógum en um árið 1000 fer að spyrjast til ríkjamyndunar á svæðinu. Það ríki var ekki burðugt fyrstu áratugina og aldirnar; Litháar voru lengi skattskyldir fyrst Dönum en síðan Kænugarðsmönnum, þeim sem við myndum nú kalla Úkraínumenn. Í Kíev eða Kænugarði var risið úkraínskt stórveldi og eitt mesta ríki Evrópu á 11tu öld, þá var hin rússneska Moskva ekki annað en fáfengilegt smáfurstadæmi. Og Úkraínumenn höfðu um stund ráð Litháa í hendi sér. Laust fyrir 1200 voru Litháar hins vegar farnir að eflast verulega og í skógunum var komið til sögunnar feykisterkt riddaralið sem ekki var lamb að leika sér við, jafnvel ekki fyrir hina öflugustu nágranna. Eftir að Mongólar komu svo að austan og knésettu Kænugarðsmenn um 1240 fóru Litháar að teygja áhrif sín í austur og suður inn á úkraínsku slétturnar. Í vestri höfðu þá dúkkað upp nýir og hættulegir óvinir, þýskar riddarareglur herskárra bráðdrepandi munka sem höfðu á endanum lagt undir sig Eistland og Lettland og vildu nú Litháen líka, og tókust þungbrynjaðir riddarar á stórum stríðsfákum á í skógunum næstu áratugina. Þjóðverjar töldu sig stunda trúboð ekki síður en landvinninga, það merkilega við Litháa var nefnilega að þeir voru enn heiðnir, sem kallað var, því þeir höfðu ekki undirgengist kristindóminn einir þjóða í Evrópu fyrir utan samískar þjóðir lengst í norðri. Í birkiskógunum þéttu voru gamlir frjósemisguðir enn við hestaheilsu og kunnastur þeirra þrumuguðinn Perknas sem gerði vilja Dievas æðstaguðs. Með þá félaga sér til aðstoðar þurftu Litháar ekki á Kristi að halda og voru þó ekki verra fólk en hverjir aðrir. Alveg óvænt fór nú í hönd stórveldistími fyrir Litháa þótt fáir væru. Árin 1316-1341 ríkti réði þar ríkjum Gediminas nokkur sem kallaðist stórhertogi og stofnaði höfuðborgina Vilníus, Algirdas sonur hans lagði undir sig Kænugarð 1362 og virtist á góðri leið með að hirða hina vaxandi Moskvuborg líka þótt hann léti að endingu staðar numið skammt frá borginni eftir að hafa sest um hana tvisvar. Á hans dögum var Litháen líklega orðið víðlendasta ríki Evrópu þótt Litháar sjálfir væru ekki nema brot þeirra slavnesku þegna sem þeir réðu í austri og suðri. Jogaíla sonur Algirdasar treysti svo Litháa enn í sessi þegar hann steig það óvænta skref 1386 að verða konungur Póllands.Það var svolítill Indíánabragur á litháísku riddurunum og dátunum með fjaðraskrautið sitt.Varla þverfótað fyrir kirkjum Pólland hafði verið að eflast síðustu aldirnar en nú vildi svo til að konungslaust var í landinu. Landsmenn höfðu á stundum verið í nánu sambandi við Ungverja og því völdu pólskir aðalsmenn Jadwígu hina tíu ára dóttur Ungverjakóngs í hásætið og þegar hún var tólf ára var henni valinn að eiginmanni Jogaíla stórhertogi Litháens. Er þau gengu í hjónaband var hann 26 ára en hún 12 ára. Ætlun Pólverja var fyrst og fremst að fá sterka bandamenn gegn þýsku riddaramunkunum sem herjað höfðu á lendur þeirra ekki síður en Litháens, þótt Pólverjar hefðu tekið kristni þegar um árið 1000. Jogaíla þurfti að kosta því til að taka kristni ásamt sinni þjóð, svo hann fengi sest í hásætið við hlið hinnar barnungu Jadwígu. Að sönnu voru Litháar sagðir blóta í laumi lengi eftir að þeir voru opinberlega orðnir kristnir, áfram var heitið á Perknas til mannrauna í áratugi eða jafnvel aldir, en eftir að kristindómurinn festi loks sæmilegar rætur gerðust Litháar hins vegar jafn kaþólskir og þeir höfðu verið heiðnir áður, að minnsta kosti opinberlega. Þegar ég gekk um Vilníus um daginn var varla þverfótað fyrir kirkjum og það voru heldur engar smákirkjur, heldur stórar höfuðkirkjur hver á fætur annarri, oft ekki nema svona 50 metrar á milli þeirra. Kristindómur Litháa kom ekki í veg fyrir að þeir héldu áfram að elda grátt silfur við þýsku riddaramunkana, tevtónsku riddarana, sem svo kölluðust núorðið, en enduðu loks með því að nefnast Prússar. Frá og með valdatíð Jogaíla og Jadwígu voru Pólland og Litháen nátengd. Frá miðri 15. öld var litið á þau sem bandalagsríki tveggja þjóða með sameiginlegan þjóðhöfðingja. Litháar lögðu alltaf mikla áherslu á að þeir væru í alla staði jafnokar Pólverja í ríkinu, enda voru það þeir sem höfðu náð mestöllum lendum hins sameiginlega ríkis í austri og suðri – einu sinni náðu þeir allt til Svartahafs. En með tímanum fór litháíski aðallinn reyndar að taka upp pólska siði og pólska tungu í vaxandi mæli, ástæðan var einfaldlega sú að Pólverjar voru mun fjölmennari en Litháar og hlutu því að verða ráðandi er fram liðu stundir. En lengst af gættu Litháar sjálfstæðis síns og litháísk alþýða blandaði aldrei um of geði við hina pólsku. Árið 1569 voru ríkin formlega sameinuð þótt enn væri kveðið á um að þjóðirnar tvær væru sjálfstæðar, þetta skref töldu Litháar sig verða að stíga til að sporna við uppgangi hættulegs granna í austri.Framtíðin virtist björt Það voru Rússar. Það hafði tekið Rússa margar aldir að ná sér eftir hervirki Mongóla en nú var mannfjöldinn á sléttunum eystra farinn að segja til sín. Moskva sankaði að sér æ fleiri rússneskum hertogadæmum og gerði að sínum. Árið 1547 tók stórhertoginn Ívan grimmi sér keisaranafn og þótti skima skörpum augum á sérhverja landspildu utan landamerkja sinna, rétt eins og Pútín gerir núna. Athyglisvert er að í Póllandi-Litháen voru um tíma uppi hugmyndir um að koma á nánu bandalagi við Rússa og Ívani grimma var til dæmis gert ljóst að því yrði vel tekið ef hann sæktist eftir krúnunni í sambandsríkinu í vestri. En Ívan hafnaði því, þar sem hann var of stoltur til að biðja um konungstign, hann vildi láta ganga bónarveg að sér. Og svo mun honum ekki hafa litist á þá bliku að skilyrði fyrir sameininu Rússlands og Póllands-Litháens væri að það síðarnefnda fengi að halda trúfrelsi sínu. Meira andans frelsi, þar á meðal trúfrelsi, þótti nefnilega einkenna Pólland-Litháen en flest önnur Evrópulönd um þær mundir, og frelsi hefur sjaldan verið sérstakt áhugamál Kremlarherra, hvaða hugmyndafræði sem þeir þykjast annars aðhyllast. Ekki kom að sinni til stórkostlegs uppgjörs milli Rússa annars vegar og Pólverja og Litháa hins vegar. Í byrjun 17. aldar var tvíríkið upp á sitt víðáttumesta, sannkallað stórveldi, og skyggði að stærð og fólksfjölda á öll stórveldin í Vestur-Evrópu. Framtíðin virtist björt fyrir hina hávöxnu stoltaralegu Litháa. Og það sem hefði getað orðið, það er sú flókna hugsun sem maður rekst á hvarvetna á götum Vilníus. Hvernig á því stóð að þetta gríðarmikla ríki, er virtist svo öflugt, skyldi svo hrynja til grunna á fáum áratugum, og nú stendur eftir smáþjóð númer 35 í Evrópu, sú saga verður að bíða betri tíma – og nýs árs. Gleðilegs nýs árs!
Eurovision Flækjusaga Menning Mest lesið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Menning Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Lífið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Lífið Króli trúlofaður Lífið Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Áskorun Fleiri fréttir Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Sjá meira