Körfubolti

Benedikt um Jón Arnór: Fer í súpermannbúninginn í landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson og Jón Arnór Stefánsson.
Benedikt Guðmundsson og Jón Arnór Stefánsson. Vísir/Vilhelm
Jón Arnór Stefánsson var valinn íþróttamaður ársins 2014 af Samtökum íþróttafréttamanna. Fréttablaðið fékk þrjá KR-þjálfara sem þekkja kappann vel til þess að segja sína skoðun á þessum frábæra leikmanni.

Benedikt Guðmundsson þjálfaði Jón Arnór þegar hann varð Íslandsmeistari síðast árið 2009 en Benedikt þjálfaði líka Jón upp alla yngri flokkana hjá KR og hafði mikil áhrif á það að hann valdi körfuboltann fram yfir fótboltann á sínum tíma.

„Jón er einn af þessum leikmönnum sem geta verið frábærir í leikjum án þess að vera með stigahæstu leikmönnum vallarins. Hann gerir svo margt sem hjálpar liðinu að vinna," segir Benedikt.

„Sigurviljinn sem hann smitar til samherja er einstakur hvort sem það er á æfingu eða í leik. Hann er heimsklassa varnarmaður en það gleymist oft að helmingurinn af leiknum fer fram á þeim vallarhelmingi," segir Benedikt.

„Leiðtogahæfileikar hans hafa aukist með aldri og reynslu. Á Spáni hefur hann tekið að sér að vera sá leikmaður sem límir liðið saman. Þess vegna segir tölfræði hans aðeins hálfa söguna þegar frammistaða hans er metin," segir Benedikt.

„Leikmenn eins og hann eru ómetanlegir og er sigurhlutfall liðsins besta tölfræðin yfir frammistöðu Jóns. Þegar í landsliðið er komið fer hann síðan í súpermannbúninginn og þá fær fólk að sjá betur alla þá hluti sem hann er fær um að framkvæma," segir Benedikt að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×