Handbolti

Kúbumaðurinn í liði Katar skaut Slóvena í kaf

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rafael Capote skorar eitt af tólf mörkum sínum.
Rafael Capote skorar eitt af tólf mörkum sínum. vísir/afp
Heimamenn í Katar virðast svo sannarlega búnir að setja saman flott handboltalið, en það tók sig til og lagði firnasterkt lið Slóvena, 31-29, í þriðju umferð A-riðils á HM í handbolta í dag.

Slóvenar voru þremur mörkum yfir, 10-7, eftir fimmtán mínútna leik, en heimamenn svöruðu með fjórum mörkum í röð og komust yfir, 11-10. Staðan í hálfleik var 18-15 fyrir Katar.

Katar komst í 24-20 þegar seinni hálfleik var hálfnaður, en þá fór slóvenska vörnin í gang sem og Gorazd Skof í markinu og var boðið upp á æsispennandi lokamínútur.

Þar höfðu gestgjafarnir betur þökk sé Kúbumanninum Rafael Capote sem skoraði mikilvæg mörk, en hann skoraði í heildina tólf mörk í leiknum. Frábær leikur hjá honum.

Kamalaldin Mallash bætti við sjö mörkum fyrir Katar en í liði Slóvena var Jure Dolenec markahæstur. Goran Stojanovic, markvörður Katar, var einnig sterkur á lokamínútunum og varði mikilvæg skot.

Katar er með sex stig eftir þrjá leiki, jafnmörg stig og heimsmeistarar Spánar. Þau eru í efstu tveimur sætum A-riðils.

Í B-riðli er Makedónía einnig með fullt hús stig líkt og Króatía, en bæði lið unnu sína leiki í dag.

Makedónía vann Bosníu, 25-22, þar sem helstu fréttir voru að Kiril Lazarov var ekki markahæstur í liði Makedóníumanna. Hann skoraði þrjú mörk en Dejan Manaskov var markahæstur með sex mörk.

Króatar völtuðu yfir Íran, 41-22, þar sem Zlatko Horvat skoraði tólf mörk og Igor Karacic fimm mörk.

Klukkan 18.00 mæta lærisveinar Patreks Jóhannessonar í austurríska landsliðinu liði Túnis í síðasta leik dagsins. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×