Sá leikur fór fram í Bördelandhalle í Magdeburg og var spilaður degi eftir mjög óvænt tap gegn Úkraínu. Staðan var ósköp einföld fyrir leik. Ísland varð að vinna, annars færi liðið heim með skottið á milli lappanna.
Þeir voru líklega ekki margir sem höfðu trú á því að Ísland gæti strítt ofurliði Frakka í leiknum. Ekki síst í ljósi hörmulegrar spilamennsku gegn Úkraínu. Annað kom á daginn. Strákarnir sýndu í þessum leik að þeir gætu unnið hvaða lið sem er í heiminum.

Ísland leiddi með tíu mörkum í hálfleik, 18-8, og hélt áfram að lemja á Frökkum í þeim síðari. Um miðjan seinni hálfleik áttuðu menn sig á því það mætti ekki vinna Frakka með of miklum mun. Annars hefði liðið farið stigalaust í milliriðil.
Það óraði engan fyrir því að strákarnir gætu flengt Frakkana með slíkum mun. Þess vegna var enginn búinn að spá í markamuninum fyrr. Alfreð Gíslason, þáverandi landsliðsþjálfari, varð því að skipa sínum mönnum að leyfa Frökkum að skora nokkur mörk. Ótrúleg staða.
„Ég hefði aldrei getað ímyndað mér það þrem mínútum fyrir leikslok að hafa áhyggjur af því að vinna leikinn of stórt. Ef við hefðum sigrað með tólf mörkum eða meira hefði Úkraína farið áfram og við með en án stiga. Ég bað því leikmenn um að hægja á og passa sig,“ sagði Alfreð og hló mjög dátt í viðtali við Fréttablaðið eftir leik en hann hefur aldrei sést fagna sigri á álíka hátt og eftir þennan leik. Hljóp og hoppaði um allt eins og óður maður.

Bördelandhalle þetta kvöld var líklega einn sterkasti heimavöllur sem Ísland hefur spilað á. Nánast hver einasti maður í þessu tæplega 8 þúsund manna húsi hélt með Íslandi og öskraði liðið áfram.
Ástæðan er sú að það voru Magdeburgar-goðsagnir á gólfinu. Alfreð Gíslason þjálfaði liðið á sínum tíma og Ólafur Stefánsson, Sigfús Sigurðsson og Arnór Atlason höfðu svo allir spilað með liðinu. Fyrir vikið fékk Ísland ótrúlegan stuðning frá fólkinu í Magdeburg.
„Í nótt var ég nánast í sjálfsmorðhugleiðingum en það er ljóst að ég fæ að lifa eitthvað lengur. Liðið sýndi alveg hreint ótrúlegan karakter hér í dag og ég er ótrúlega stoltur af liðinu. Þetta var eins og að spila á heimavelli annars og áhorfendur ótrúlegir allir saman,“ sagði Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari kampakátur eftir leikinn.
Hér að neðan má sjá helstu atvik úr leiknum ótrúlega. Leik sem var líklega sá besti í sögu íslenska landsliðsins.
