Sérstök staða er komin upp fyrir leik Danmerkur og Króatíu um 5. sætið á HM í handbolta í dag. Enginn virðist vita hvað felist nákvæmlega í því að lenda í 5. sæti mótsins.
Undankeppni næstu Ólympíuleika fer fram á næsta ári. Þeim tólf liðum sem þangað komast verður skipt í þrjá riðla og hingað til hafa þeir farið fram í löndum þeirra liða sem hafa lent í 2., 3. og 4. sæti HM.
Ef Katar verður Asíumeistari á næsta ári munu liðin í 3., 4. og 5. sæti halda sína riðla í undankeppninni - miðað við fyrirkomulag undankeppninnar hingað til. En Alþjóðahandknattleikssambandið hefur enn ekki gefið út hvort þær reglur munu einnig eiga við nú.
Sá möguleiki hefur verið ræddur að láta riðlana þrjá fara fram í þremur heimsálfum en ekki er vitað hvernig það verður ákveðið.
„Þetta var afar mikilvægur sigur upp á að komast í undankeppni Ólympíuleikanna,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana, eftir sigurinn á Slóveníu í gær.
„Nú spilum við gegn Króatíu um 5. sætið og mögulega að keppa á heimavelli í undankeppni HM. Mögulega. Það veit enginn. Og það er merkilegt finnst mér. Afar merkilegt. Að maður veit það ekki.“
„Mér finnst einfaldlega merkilegt að þessar upplýsingar hafi ekki borist frá IHF. Að maður fái ekki að vita um hvað er verið að spila. Skiptir 5. sætið máli eða eitthvað annað?“
„Ég vil ekki nota of sterk orð um þetta. Ég bara skil ekki hvernig þetta er til komið. Mér finnst það undarlegt.“
Leikur Danmerkur og Króatíu hefst klukkan 16.15 í dag.
Guðmundur: Vitum ekki hvað við erum að spila um

Tengdar fréttir

„Allir í Katar vita hvernig þetta virkar“
Mimi Kraus sagði frá samskiptum sínum við leigubílsstjóra í Katar.

Umfjöllun: Danmörk - Slóvenía 36-33 | Danir leika um 5. sætið
Hornamaðurinn Lasse Svan Hansen skoraði 13 mörk úr jafn mörgum skotum þegar Danmörk bar sigurorð af Slóveníu, 36-33, í leik um réttinn til að leika um 5. sætið á HM í Katar.

Hermönnum úthlutað sætum eiginkvenna leikmanna
Konunum var smyglað inn í gegnum VIP-svæði fyrir leik Þýskalands og Katars á HM í handbolta.

Búið að ákveða úrslitin fyrir leik
Pólverjar voru æfir yfir dómgæslunni í leik sínum gegn Katar í dag og klöppuðu hæðnislega fyrir dómurunum eftir leik.

Gummi: Var aldrei rólegur í seinni hálfleik
Guðmundur Guðmundsson segir að sigur Dana á Slóvenum hafi verið gríðarlega þýðingarmikill. Danir eru öruggir með að spila um sæti á Ólympíuleikunum í Brasilíu á næsta ári. Danir mæta Króötum á morgun um 5. sætið á HM.