Körfubolti

Finnur Freyr: Partíið heldur bara áfram

Ingvi Þór Sæmundsson í DHL-höllinni skrifar
Finnur Atli Magnússon í baráttunni í kvöld.
Finnur Atli Magnússon í baráttunni í kvöld. vísir/andri marinó
"Ég er virkilega ánægður með að vera kominn í úrslitaleikinn  og við erum einu skrefi nær því að ná einu af markmiðunum okkar.

"En það er ekkert áunnið ennþá og við þurfum að klára leiki í deildinni áður en við pælum í úrslitaleiknum," sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, eftir átta stiga sigur, 88-80, á Tindastóli í undanúrslitum Powerade-bikarsins.

Þótt KR hafi leitt allan leikinn voru Stólarnir aldrei langt undan og Íslandsmeistararnir þurftu að hafa mikið fyrir sigrinum. Finnur sagðist hafa búist erfiðum leik sem varð svo raunin.

"Þetta voru tvö lið sem vildu fara, og ætluðu sér, í Höllina og gerðu allt sem þau gátu til þess. Úr varð hörkuleikur og kannski urðu gæði leiksins undir í baráttunni.

"En þetta snýst bara um eitt og það er að vera með fleiri stig á töflunni þegar leikurinn er búinn," sagði Finnur sem hrósaði Michael Craion fyrir hans frammistöðu í kvöld.

"Við náðum að stoppa áhlaupin þeirra og þá sérstaklega Mike sem er ekki búinn að spila eins og hann gerði fyrir jól. En hann steig upp í kvöld og var oft á tíðum óstöðvandi.

"Við þurfum að nota hann meira og sérstaklega þegar við fengum ekki þetta venjulega framlag frá Helga (Má Magnússyni) og Darra (Hilmarssyni). Mike var virkilega sterkur í kvöld."

KR tapaði sínum fyrsta leik í vetur fyrir Tindastóli fyrir tæpum tveimur vikum en hafa síðan þá unnið stórsigur á Keflavík auk sigursins í kvöld. En er Finnur ánægður með hvernig hans menn hafa svarað tapleiknum fyrir norðan.

"Já, engin spurning. En við getum betur. Við erum ánægðir með sigrana og það var margt jákvætt í leiknum í kvöld en það er líka margt sem við verðum að gera miklu, miklu betur. En það er nóg eftir af tímabilinu og þetta partí heldur bara áfram," sagði Finnur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×