Michael Biegler, þjálfari pólska landsliðsins, sagði á blaðamannafundi eftir leikinn gegn Spáni að hann væri stoltur af strákunum sínum.
„Það hefði orðið sárt að fara héðan frá Katar án þess að koma heim með verðlaun,“ sagði Biegler.
Hann kvaðst ennfremur hafa gert mistök að nýta ekki örvhentu skyttuna Michal Szyba meira í mótinu. Szyba skoraði 8 mörk úr 12 skotum í dag en fyrir leikinn hafði hann aðeins skorað 6 mörk í mótinu.
Szyba segir að þetta hafi verið eins og draumur og án nokkurs vafa besti leikur hans með pólska landsliðinu. Manuel Cadenas, þjálfari Spánverja, sagði að Szyba hefði verið besti maður vallarins og Spánverjar hefðu ekki ráðið við hann.
Línumaðurinn Kamil Syprzak lék einnig mjög vel og skoraði 6 mörk úr 7 skotum. Hann var dauðþreyttur eftir leikinn og var að drepast í skrokkunum.
„Við erum í sjöunda himni það er ekki hægt að segja annað eftir 70 mínútna bardaga.
„Við gáfum allt sem við gátum í leikinn því við vissum að þetta væri síðasti leikurinn í keppninni og erum sannarlega glaðir með að hafa unnið bronsverðlaunin.
„Það skiptir ekki máli þó ég hafi skorað 6 mörk, Michal Szyba skoraði 8 en við erum lið, baráttujaxlar. Það skiptir ekki máli hvort við vinnum eða töpum, við gerum það sem lið,“ sagði Syprzak.

