Handbolti

Snorri Steinn frá í sex vikur vegna meiðsla

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Snorri Steinn spilaði brotinn og skoraði sex mörk í sjö skotum.
Snorri Steinn spilaði brotinn og skoraði sex mörk í sjö skotum. vísir/eva björk
Snorri Steinn Guðjónsson, leikstjórnandi franska liðsins Sélestad og íslenska landsliðsins í handbolta, er meiddur á hendi og verður frá næstu sex vikurnar. Þetta hefur Vísir fengið staðfest.

Snorri braut þumalfingur í bikarleik gegn Saran í síðustu viku sem Sélestad vann með eins marks mun, 27-26. Snorri skoraði sex mörk í sjö skotum í leiknum.

Leikstjórnandinn þrautreyndi fann til eymsla í hendi við upphaf leiksins, en kláraði hann engu að síður brotinn á þumalfingri.

Hann fór í skoðun hjá lækni franska landsliðsins í gær í Strasbourg þar sem kom í ljós að hann hefði brotnað á þumalfingri. Snorri var settur í spelku um leið.

Þetta er mikið áfall fyrir Sélestad sem verður nú án síns lang besta leikmanns á tímabilinu í einn og hálfan mánuð. Liðið er í mikilli fallbaráttu með átta stig í 13. sæti af 14 liðum.

Snorri Steinn er lang markahæstur í liðinu með 97 mörk í 14 leikjum eða tæp sjö mörk í leik.

Sélestad varð fyrir öðru áfalli í sama leik því slóvenska skyttan Igor Vujic, einn besti leikmaður liðsins, meiddist á ný og verður frá í nokkrar vikur.

Snorri Steinn ætti þó að vera orðinn heill fyrir næstu verkefni íslenska landsliðsins, en það mætir Serbum í tveimur leikjum 29. apríl og 3. maí í undankeppni EM 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×