Körfubolti

Blóðtaka fyrir Fjölni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnþór reynir að fara framhjá Hjálmari Stefánssyni, leikmanni Hauka.
Arnþór reynir að fara framhjá Hjálmari Stefánssyni, leikmanni Hauka. vísir/ernir
Arnþór Freyr Guðmundsson, leikmaður Fjölnis í Domino's deildinni í körfubolta, er á leið til Spánar en hann hefur samið við 4. deildarliðið Soliss Alcázar. Þetta kemur fram á Karfan.is.

Arnþór hefur áður leikið á Spáni, með liði Albacete sem er í sömu deild og sama riðli og Alcázar.

Í samtali við Karfan.is segir Arnþór það hafa verið erfiða ákvörðun að yfirgefa Fjölnisliðið sem er í harðri fallbaráttu í Domino's deildinni.

„Hrikalega erfitt og það var lítið sofið um nóttina eftir að ákvörðunin var tekin en þetta varð niðurstaðan og mér fannst ég ekki geta hafnað þessu tækifæri,“ sagði Arnþór og bætti við:

„Það vantaði bakvörð í liðið, skotmann sem getur leyst af í stöðu leikstjórnanda, ekki ósvipað hlutverk og ég skilaði hjá Albacete ásamt því auðvitað að færa vörninni smá lím.“

Arnþór segir Grafavogsliðið hafa sýnt ákvörðun sinni skilning en Fjölnir er í 11. og næstneðsta sæti Domino's deildarinnar með átta stig, líkt og Skallagrímur og ÍR, þegar fjórar umferðir eru eftir af deildarkeppninni.

Arnþór, sem er 23 ára, spilaði vel með Fjölni í vetur en hann skoraði 15,8 stig, tók 4,6 fráköst og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í 18 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×