Kanadíska olíufélagið Ithaca hefur ákveðið að senda rannsóknarskip á Drekasvæðið til endurvarpsmælinga í sumar. Kínverska félagið CNOOC hefur einnig staðfest sömu áform. Þar með er ljóst að tveir hópar sérleyfishafa hefja olíuleit þar á næstu mánuðum.
Sérleyfin til olíuleitar og olíuvinnslu á Drekasvæðinu voru upphaflega þrjú en í desember skilaði hópur undir forystu Faroe Petroleum inn sínu leyfi. Hinir hóparnir, undir forystu Ithaca og CNOOC, halda sínu striki en íslenska félagið Eykon tengist þeim báðum.

Kínverska félagið var þegar í haust búið að lýsa yfir vilja sínum til að byrja í sumar og hefur nú staðfest þau áform sín, að því er fram kemur í viðtali við Gunnlaug Jónsson, framkvæmdastjóra Eykons, í fréttum Stöðvar 2.
Þetta fyrsta stig olíuleitarinnar felst í því að rannsóknarskip verða send á svæðið til endurvarpsmælinga. Þau sigla þá eftir fyrirfram ákveðnum ferlum með kapla og mælibúnað í eftirdragi til að kortleggja jarðlögin undir hafsbotni. Gunnlaugur segir að í öðru leyfinu verði teknar sneiðmyndir sem samsvara eittþúsund kílómetrum en í hinu leyfinu verði það tvöþúsund kílómetrar.
Rannsóknarskipum af þessu tagi fylgja nokkur aðstoðarskip en hérlendis verða menn helst varir við umsvifin ef flotinn kemur til hafnar að sækja vistir og þjónustu. Kveðst Gunnlaugur telja líklegt að skipin komi til hafnar hérlendis.

Þá er hugsanlegt er að hóparnir tveir sameinist um rannsóknarskip. Gunnlaugur segir viðræður hafnar um slíkt milli leyfishafanna og það komi væntanlega í ljós á næstu vikum eða mánuðum.
Hann segir að lágu olíuverði fylgi lágt verð á þjónustu við olíugeirann. „Við teljum það ekki víst að svo lágt verð fáist á næstu árum þannig að við viljum nota tækifærið,“ segir Gunnlaugur.