Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: KR - Grindavík 71-65 | Meistararnir í vandræðum með Grindavík

Stefán Árni Pálsson í DHL-höllinni skrifar
Helgi Már Magnússon, leikmaður KR.
Helgi Már Magnússon, leikmaður KR. vísir/stefán
KR vann Grindavík, 71-65, í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Domnios-deildar karla en leikurinn fór fram í DHL-höllinni. Brynjar Þór Björnsson var atkvæðamestur í liði KR og gerði 19 stig.

KR-ingar voru örlítið sterkari til að byrja með og leiddu leikinn í upphafi. Brynjar Þór Björnsson, leikmaður KR, fór á kostum og gerði til að mynda tíu stig í fyrsta leikhluta. Grindvíkingar voru í vandræðum sóknarlega og áttu erfitt með að brjóta vörn KR á bak aftur. KR-ingar gátu einnig bætt sinn sóknarleik töluvert eftir fyrsta fjórðung en þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 20-13 fyrir KR.

Strax í byrjun annars leikhluta gerðu KR-ingar tvær þriggja stiga körfur í röð og breyttu stöðunni í 26-13.

Sóknarleikur Grindvíkinga var allt of tilviljunarkenndur og stundum eins og leikmenn liðsins trúðu ekki á að þeir gætu skorað. Pavel Ermolinkskij kom inn á í liði KR um miðjan annan leikhluta en hann hefur verið frá vegna meiðsla síðustu vikur. KR-ingar voru bara mikið mun ákveðnari og markvissari í sínum aðgerðum. Á tíma leit út eins og Vesturbæingar væru að stinga af en þeir gulu neituðu að gefast upp. Það munaði því aðeins tólf stigum, 38-26, á liðunum í hálfleik.

KR-ingar byrjuðu síðari hálfleikinn með miklum látum og keyrðu hraðan upp í leiknum. Á einu augabragði var staðan orðinn 47-28 og þeir komnir með fín tök á leiknum. Eftir það áttu Grindvíkingar erfitt uppdráttar og lítið gekk upp hjá liðinu. KR-ingar létu boltann vinna og nánast allir leikmenn liðsins tóku virkan þátt í leiknum. Þegar lokaleikhlutinn var eftir munaði 15 stigum á liðunum, 55-40.

Grindvíkingar voru nokkuð sprækir í upphafi fjórða leikhluta og reyndu að fá áhorfendur með sér í lið. Liðið þurfti að gjörbreyta sínum leik til að eiga möguleika. Allt í einu var staðan orðin 57-48 og aðeins munaði níu stigum þegar sjö mínútur voru enn eftir af leiknum. Grindvíkingar sýndu fínan varnarleik og KR-ingar voru hreinlega í vandræðum á tíma í fjórða leikhluta. Þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum fékk Michael Craion, leikmaður KR, sína fimmtu villu og tók ekki meira þátt í leiknum.

Þá munaði aðeins fimm stigum liðunum, 59-54, og spennan gríðarlega. Grindvíkingar náðu að minnka muninn niður í aðeins tvö stig þegar tæplega þrjár mínútur voru eftir, ótrúlegur kafli hjá þeim gulu. KR-ingar voru samt sem áður sterkari undir lokin og þá kom reynsla Helga Más Magnússonar að notum. Hann var virkilega öflugur í restina og KR vann að lokum sex stiga sigur, 71-65. Það sem Grindvíkingar taka með sér úr leiknum í kvöld er að liðið gafst aldrei upp.

Vesturbæingar leiða því einvígið 1-0. Næsti leikur verður í Röstinni á sunnudagskvöldið. 

Sverrir: Hefðum með smá heppni getað tekið þetta„Þetta var fín barátta hjá okkur undir lokin,“ segir Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindvíkinga, eftir tapið í kvöld.

„Við vorum sérstaklega grimmir í fjórða leikhluta og hefðum með smá heppni getað tekið þennan leik.“

Sverrir segir að þrátt fyrir mikla baráttu hjá sínum mönnum sé liðið samt sem áður 1-0 undir í einvíginu.

„Við þurfum að snúa okkur að leiknum á sunnudaginn og koma klárir í hann.“

Finnur: Verðum að mæta grimmari til leiks í Grindavík„Mér fannst við vera með góð tök á þessum leik fyrstu 30 mínúturnar en þá förum við að gefa eftir og hleypum þeim inn í leikinn,“ segir Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR.

„Það skiptir engu máli hvort maður vinnur leik með tuttugu stigum eða sex stigum, sigur er sigur og það er það sem skiptir öllu.“

Finnur segir að sóknarlega hafi liðið ekki verið upp á sitt besta í kvöld.

„Við missum síðan Michael Craion út í villuvandræði og hann lék svo gott sem ekkert í fjórða leikhluta.“

Hann segir að liðið verði að vera mikið mun betra á sunnudaginn þegar liðin mætast í Grindavík.

KR-Grindavík 71-65 (20-13, 18-13, 17-14, 16-25)KR: Brynjar Þór Björnsson 19/4 fráköst, Helgi Már Magnússon 17/8 fráköst, Michael Craion 16/9 fráköst/4 varin skot, Finnur Atli Magnússon 12/6 fráköst, Björn Kristjánsson 3/4 fráköst, Darri Hilmarsson 2/11 fráköst, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 2, Vilhjálmur Kári Jensson 0, Illugi Steingrímsson 0, Pavel Ermolinskij 0, Þorgeir Kristinn Blöndal 0, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 0.

Grindavík: Rodney Alexander 24/18 fráköst/5 stoðsendingar, Þorsteinn Finnbogason 10, Þorleifur Ólafsson 9/5 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 7/6 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 6, Jóhann Árni Ólafsson 6, Oddur Rúnar Kristjánsson 3, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Nökkvi Harðarson 0, Hinrik Guðbjartsson 0, Hilmir Kristjánsson 0, Daníel Guðni Guðmundsson 0.

[Bein lýsing]Leik lokið (71-65): KR-ingar betri undir lokin en þeir gulu gáfust ekki upp í eina sekúndu.

4. leikhluti (68-61): 
Brynjar setur niður tvö vítaskot fyrir KR þegar 30 sekúndur eru eftir og lokar þessum leik. 

4. leikhluti: (65-57): Helgi með þrist. Fer langt með þennan leik. 

4. leikhluti (62-57): 
Helgi Már Magnússon, leikmaður KR, fer á línuna og setur niður eitt stig. KR komið fimm stigum yfir. 

4. leikhluti (59-57): 
Þorsteinn Finnbogason með þrist og KR missir boltann. Hvað er í gangi?

4. leikhluti (59-54): 
Jón Axel Guðmundsson, fer á línuna og setur niður tvö stig. Þetta er fimm stiga leikur. ÓTRÚLEGT! Fjórar mínútur eftir. 

4. leikhluti (59-52): 
Rodney Alexander með risa þrist fyrir Grindvíkinga. KR-ingar missa síðan boltann. Sjö stiga munur og allt í háa loft. Michael Craion er kominn með fimm villur hjá KR. Þetta er svakalegur leikur. 

4. leikhluti: (57-48): 
Svakaleg byrjun hjá þeim gulu. Það munar aðeins níu stigum!!!

4. leikhluti (57-43): 
Þeir gulu byrja leikhlutann betur og ætla ekki að gefast upp. KR-ingar taka strax leikhlé. Það munar fjórtán stigum og þetta er vissulega möguleiki.

3. leikhluta lokið (55-40): 
Þetta verður gríðarlega erfitt fyrir Grindvíkinga. 

3. leikhluti (55-36): 
KR er eina liðið á vellinum núna. 

3. leikhluti (51-33): 
Stigaskorið að dreifast nokkuð jafn hjá KR. Brynjar Þór með 16 stig, Craion með 12, Helgi Már með 9 og Finnur Atli með 8 stig. 



3. leikhlut (47-28): 
KR-ingar byrja síðari hálfleikinn vel og keyra vel upp hraðann. Grindvíkingum brugðið. 

Hálfleikur (38-26): 
Grindvíkingar mega teljast heppnir að vera aðeins tólf stigum undir. KR-ingar hafa verið mikið mun betri en þeir gulu gefast aldrei upp.



2. leikhluti (30-15): 
Núna þurfa Grindvíkingar að fara gera eitthvað. Sóknarleikur liðsins er virkilega tilviljunarkenndur og ekkert gengur upp. Létt fyrir deildarmeistarana. KR-ingar hafa tekið 16 fráköst í leiknum, þar af sjö sóknarfráköst. 

2. leikhluti (26-15): 
Jæja þá er Pavel Ermolinskij kominn inn á í liði KR. 

2. leikhluti (26-13): 
Helgi Már opnar leikhlutann á þriggja stiga körfu fyrir KR og Brynjar Þór setur síðan niður annan þrist nokkrum sekúndum síðar. Allt í einu 13 stiga munur. 

1. leikhluta lokið (20-13): 
Enn fínn leikur í gangi. 

1. leikhluti (20-11): 
Finnur Atli Magnússon hamrar hér niður þriggja stiga körfu fyrir KR. Fagnar vel.

1. leikhluti (15-11): 
Brynjar kominn með tíu stig fyrir KR og Jón Axel með fjögur fyrir Grindavík. 

1. leikhluti (12-7): 
Michael Craion, leikmaður KR, er búinn að blokka þrjá bolta á fyrstu fimm mínútum leiksins. Magnað hjá drengnum. 

1. leikhluti (8-6): 
Töluvert jafnræði á með liðunum til að byrja með. Grindjánar ákveðnir. 

1. leikhluti (2-2): 
Pavel byrjar á bekknum. Hann er aftur á móti fyrir aftan bekkinn og heldur sér vel heitum. 

1. leikhluti (0-0): 
Leikurinn er farinn af stað. 



Fyrir leik: 
Hér er salurinn nánast að fyllast. Þetta verður frábær skemmtun og loksins er úrslitakeppnin byrjuð.

Fyrir leik: 
Þessi lið mættust í úrslitaeinvíginu fyrir ári síðan og þá fór KR með sigur af hólmi. Núna er staðan önnur. Grindvíkingar hafa einfaldlega ekki náð sér á strik á tímabilinu og mæta hér deildarmeisturunum í kvöld. 

Fyrir leik: 
Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindvíkinga, verður ekki með liðinu í kvöld en hann er að jafna sig eftir lungnabólgu. Stórt skarð fyrir þá gulu.

Fyrir leik:
 Pavel Ermolinskijs er mættur í upphitun og er á leikskýrslu. Það eru fréttir, ekki góðar fréttir fyrir Grindvíkinga, en góðar fyrir KR-inga. 

Fyrir leik: Góða kvöldið og velkomin með Vísi í DHL-höllina í Vesturbænum þar sem KR tekur á móti Grindavík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×