Handbolti

Guðjón Valur frábær í fyrri hálfleik og Barcelona vann útileikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Vísir/EPA
Guðjón Valur Sigurðsson og félagar í Barcelona eru í ágætum málum eftir fyrri leik sinn við króatíska liðið RK Zagreb í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í handbolta.

Barcelona vann þá tveggja marka sigur á útivelli í Zagreb í dag, 25-23, og ætti að geta tryggt sér sæti í undanúrslitunum á heimavelli sínum.

Barcelona hefði getað unnið mun stærri sigur því liðið var fjórum mörkum yfir þegar sex mínútur voru eftir af leiknum.

Zagreb-liðið minnkaði muninn niður í eitt mark og fékk tækifæri til að jafna metin en fyrirliðinn Víctor Tomás innsiglaði sigur Börsunga.

Guðjón Valur skoraði fjögur mörk fyrir Barcelona en Nikola Karabatic var markahæstur með sex mörk og þeir Kiril Lazarov og Tomás skoruðu báðir fimm mörk. Fjögur mörk Kiril Lazarov komu af vítalínunni.

Guðjón Valur átti frábæran fyrri hálfleik þar sem hann nýtti öll fjögur skotin sín en tvö þeirra komu úr hraðaupphlaupum og tvö eftir að hann hafði leyst inn á línu.

Guðjón Valur fiskaði einnig tvö víti en aðeins annað þeirra skilaði marki. Siarhei Rutenka klikkaði á fyrra vítinu sem Guðjón Valur fiskaði en Kiril Lazarov skoraði úr hinu.

Guðjón Valur kom Barcelona í fyrsta sinn fimm mörkum yfir, 13-8, þegar hann skoraði sitt fjórða mark þegar tvær mínútur voru til hálfleiks.

Nikola Karabatic skoraði einnig fjögur mörk í fyrri hálfleiknum og Barcelona var 14-10 yfir eftir hann. Danijel Saric varði mjög vel í markinu í fyrri hálfleiknum.

Barcelona var áfram með 3-4 marka forskot í seinni hálfleiknum en Guðjón Valur klikkaði á eina skoti sínu í honum.

Barcelona var síðan 24-20 yfir þegar sex mínútur voru eftir en þá komu þrjú króatísk mörk í röð. Króatarnir fengu tvö tækifæri til að jafna en Börsungar héldu út og náðu að landa mikilvægum sigri á erfiðum útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×